Sykurlaus september eða?

Haustið er oft tími til að gera breytingar, fara aftur í rútínu og huga að heilsunni. Við íslendingar erum rosa góð í að fara í “átak” og reyna þannig að gera róttækar breytingar. Kona sem ég þekki sem kemur upphaflega frá Noregi hló af því hvernig Íslendingar eru. Fyrir jólin koma smákökur og konfekt. Eftir jólin er lögð áhersla á heilsueflandi vörur, í febrúar kemur þorramaturinn og um leið og þorranum líkur koma páskaeggin. Við vitum eflaust öll hvernig við högum okkur í samræmi við árstíðir. Það er gott að mörgu leiti því þá sækjumst við í ákveðin vana en auðvitað er best að halda jafnvægi. Það er best að huga vel að heilsunni allan ársins hring og halda rútínu. Ég veit það af eigin reynslu að rútína er frábær. Ég þrífst rosalega vel í rútínu en þegar fer að vora og skólarnir fara í sumarfrí þá hlakka ég til að detta úr hluta af rútínunni. Ég hlakka til að vaka lengur, því ég elska íslensk sumarkvöld. Ég reyni samt að halda þeim hluta af rútínunni inni sem hefur mikilvæg jákvæð og góð áhrif á mig. Ég reyni að hreyfa mig og passa upp á heilsuna og halda henni í góðu jafnvægi. Jafnvægi er gott að lýsa sem því að hjóla. Þegar við hjólum þá reynir á jafnvægi þegar við beygjum. Stundum þurfum við að beygja skarpt til vinstri og stundum til hægri og þá er eins gott að detta ekki. Þegar tekur að hausta og fröken rútína vinkona mín kemur aftur þá hlakka ég til að fara fyrr að sofa og vakna helst áður en aðrir heimilismenn vakna. Mér finnst rútína góð og mér finnst gott að setja mér markmið en best finnst mér þegar ég nýt vegferðarinnar að markmiðum mínum. 

 

Í dag eru margir að taka þátt í sykurlausum september. Það er gott og gilt að taka sykur út úr mataræði sínu. Sykur er bólgumyndandi og getur haft slæm áhrif á líkamann. Það er gott að hafa sykur aðeins í litlu magni í mataræði sínu, hvort sem það er september eða október. Ekki bara til að taka þátt í einhverju átaki heldur af því að þú vilt fara vel með líkama þinn. Ég tek september og janúar mánuð til að afeitra líkama minn. Mér finnst gott að gefa líkama mínum tækifæri til að losa sig við aukaefni og fá tækifæri til að vinna rétt og vel. Svipað gerist þegar við sofum nóg. Þá fær heilinn tækifæri til að hreinsa sig. Það sama gerist líka þegar við föstum. Ef við föstum í 12 tíma á sólahring þá fær líkaminn tækifæri til að melta, hreinsa og losa sig við eiturefni. Það er margt sem hægt er að gera til að hugsa vel um líkama sinn. Það er gott að halda jafnvægi, njóta lífsins, fara vel með líkama okkar því við eigum bara einn. Ég hvet þig til að nota þennan mánuð til að velja það að huga vel að heilsunni. Ef þú smellir hér getur þú nálgast verkfæri sem ég nota til að hjálpa einstaklingum að vega og meta hvernig gengur á hinum ýmsu sviðum lífsins.  Þetta verkfæri kallast lífshjólið. Í raun og veru snýst þetta um að gefa sér einkunn á bilinu 0-10 varðandi það hvernig gengur á ýmsum sviðum lífsins. 0 er miðjan á hringnum og 10 er ysti hluti hringsins. Ég hvet einstaklinga sem eru á námskeiðum hjá mér til að gera punkt á blaðið og teikna línu á milli punktanna. Þá kemur svo skýrt í ljós hvað skorar hátt og hvað skorar lágt. Það er t.d mjög algengt að heilsan og heimilisumhverfi skori lágt í lok sumars. Það er líka algengt að gleði og hreyfing skori hærra í lok sumars en um miðjan vetur. 

 

Ég hvet þig til að nýta þér þetta verkfæri, það getur hjálpað þér að ná jafnvægi. 

 

Gangi þér vel,

Gunna Stella




Er þetta sannleikur eða lygi?

Fyrir nokkrum árum síðan var dóttir mín að æfa fimleika. Á æfingu gerði hún stökk sem hún var vön að gera en þegar hún var að lenda stökkinu rakst hún með hnéð í trampólínið sem hún hafði byrjað stökkið á. Hún fékk stóran skurð á hnéð og þurfti að fara á spítala til að láta gera að sárinu. Við fengum þær leiðbeiningar að halda sárinu hreinu og hún mætti fara á æfingar eftir nokkra daga. Það sem hinsvegar gerðist er að hún fékk sýkingu í sárið. Hnéð bólgnaði og hún þurfti að fara tvisvar sinnum á dag í heila viku á spítalann til þess að fá sýklalyf í æð og liggja mikið fyrir með upphækkun undir veika fætinum. Lítið sár getur orðið að stóru vandamáli ef ekki er tekist rétt á við það. Sem betur fer var hægt að vinna að góðum og farsælum bata með hjálp læknavísindina. 

 

Þessi saga fékk mig til þess að hugsa um það hversu mikil áhrif lítil sár sem við fáum á hjartað eða sálina geta haft. Þau geta valdið bólgum og síðar meir sýkingum sem hafa mikil áhrif á sjálfstraust, tilfinningar og framtíðarsýn. Ég hef kynnst mörgum einstaklingum í gegnum tíðina sem hafa haft brotið sjálfstraust árum saman vegna þess að einhver einstaklingur talaði neikvæð orð inn í líf þeirra. Orðin sem við tölum skipta máli og hafa ekki bara áhrif þann dag sem við segjum þau heldur geta þau haft áhrif alla ævi. 



Hvort sem þú ert 17 eða 70 ára, þá er mjög líklegt að þú munir eftir einhverjum neikvæðum orðum sem einhver hefur talað yfir líf þitt. Kannski hljómar þau oft í huga þér:

 

“Það verður aldrei neitt úr þér”. 

“Þú getur aldrei lært”. 

“Ég er búin að fá nóg af þér”.

“Ef þú værir meira eins og bróðir þinn”

“Þú ert alltaf í fýlu”

“Þú ert of feit/ur”

“Heimskingi”

 

og svo mætti lengi telja. 



Í góðri bók er tungunni líkt við lítinn eldneista sem getur kveikt í heilum skógi. Þetta segir okkur að orð geta haft mikil áhrif. Það auðvelt að nota orð sem vopn. Það er auðvelt að nota orð til að brjóta aðra niður og oftar en ekki eru ljót orð notuð af fólki til þess að verja sjálfan sig fyrir sársauka. Ég man eftir því að fullorðnir einstaklingar töluðu neikvæð orð inn í líf mitt.  Ég man líka eftir því að hafa verið fljót að nota hvöss og ljót orð þegar ég var unglingur. Það var ekki af því að ég vildi særa manneskjuna heldur vildi ég koma í veg fyrir að ég yrði særð. Mér er það líka minnisstætt að þegar ég var unglingur og nýflutt í nýjan bæ þá fór ég eins og aðrir bekkjarafélagar mínir í handavinnu. Ég átti að læra að prjóna. Kennarinn vildi kenna mér að prjóna á annan hátt en ég hafði áður lært og þótti mér það mjög slæm hugmynd á þeim tímapunkti. Ég var stolt og í mikilli vörn þar sem ég var innst inni óörugg. Ég tók því á það ráð að vera í andstöðu við kennararann og var henni alls ekki auðveld. Greyið konan þurfti að takast á við mig og reyna að kenna mér og öðrum sem voru á sama máli. Ég sá ekki neitt rangt við þessa hegðun á þessum tímapunkti. Nokkrum árum síðar, þegar ég var orðin fullorðin og farin að starfa sem kennari sá ég að það sem ég hafði sagt og gert var rangt. Ég ákvað því að fara í heimsókn í gamla bæinn minn, banka upp á hjá gamla handavinnukennaranum mínum sem var komin á eftirlaun og biðjast afsökunar á því hvernig ég hafði hagað mér. Ég gleymi þessari heimsókn aldrei. Það var myrkur og rigning þegar ég bankaði á dyrnar.  Hún þekkti mig um leið og hún opnaði dyrnar. Hún bauð mér inn, sýndi mér fjölskyldumyndir, bauð mér kaffi og sagði við mig að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því hvernig ég hafi látið sem unglingur. Hún sagðist skilja af hverju ég hafði látið svona og hún hafi áttað sig á því að mér hafi ekki liðið vel á þessum árum. Ég er svo þakklát fyrir þessa heimsókn. Ég er þakklát fyrir að hafa getað beðist afsökunar á þeim orðum sem ég talaði inn í hennar líf og í huga mér er þetta dýrmæt minning. 

 

Í þeim tilfellum sem við höfum sjálf talað neikvæð orð inn í líf annarra og höfum tækifæri til að biðjast afsökunar þá er það alltaf góð leið. Fyrir einstaklinginn sem meðtók orðin getur það verið lækning.  Hvað varðar þau neikvæðu orð sem hafa verið töluð yfir okkar líf þá höfum við líka tækifæri til að stoppa þá sýkingu sem þau vilja valda í huga okkar og sál. Við þurfum ekki að bíða eftir því að einstaklingurinn sem talaði orðin sjái að sér og biðjist fyrirgefningar. Við getum valið í dag að flokka þau orð sem hafa verið töluð yfir líf okkar í tvo flokka. 

 

Sannleikur og lygi 

 

Þau neikvæðu orð sem voru töluð yfir líf þitt sem barn og unglingur þurfa ekki að vera sönn. Við getum ekki stjórnað því hvað aðrir segja við okkur eða um okkur en við getum stjórnað því hverju við trúum. Alveg eins og kennarinn minn forðum daga áttaði sig á því að það sem ég sagði við hana var ekki sannleikur, þá getum við áttað okkur á því að mikið af þeim neikvæðu orðum sem fólk hefur sagt eða segir við okkur er sögð í vörn. 

 

Neikvæðum orðum er erfitt að gleyma og jákvæð orð er oft erfitt að muna. En jákvæð orð bera góðan ávöxt og hafa góð áhrif á líf einstaklinga. 

 

Mín hvatning til þín í dag er að vera einstaklingur sem talar út jákvæðni inn í líf annarra. Vertu einstaklingur sem hvetur og metur aðra. Ef þú hugsar eitthvað jákvætt, segðu það þá. Það getur breytt lífi þess einstaklings sem þú talar við þann daginn. 

 

 Vingjarnleg orð eru hunang,

sæt fyrir góminn, lækning fyrir beinin.

Orðskviðirnir

 

 

Orðin okkar skipta máli, vöndum okkur! 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella 







Skipulag sem virkar!

Barnið: “Af hverju ég?” Af hverju ekki hann? “Ég þarf alltaf að gera allt!”

 

Foreldri: “Er sanngjarnt að ég geri allt?” “Er ég einhver þjónn á þessu heimili?” 



Hefur þú heyrt þessar setningar frá börnunum þínum eða svarað á þennan hátt? 

 

Það að halda heimili er teymisvinna. Heimilið á að vera griðastaður sem öllum líður vel á. Ég vil að börnunum mínum líði vel heima og ég vil líka að okkur fullorðna fólkinu líði vel heima hjá okkur. Mér finnst mjög gott að hafa snyrtilegt heimili og líður betur þegar hlutir eiga sinn stað og ég geti sest á gólfið eða gert armbeygjur án þess að hendurnar á mér verði mjög skítugar.

 

Við erum misjafnlega mörg á heimilinu, oftast fleiri en í meðalheimili. Það fer eftir því hvort börnin eru með vini hjá sér eða hvort það séu ættingjar í heimsókn. Það getur tekið meira á að halda heimilinu snyrtilegu eftir því sem fjölgar en með því að passa upp á magn hluta (þó það sé kannski erfiðara eftir því sem fólki fjölgar) og passa upp á að allir hjálpist að þá verður heimilishaldið auðveldara og öllum líður betur. 

 

Ég hef prufukeyrt hin ýmsu skipulög þegar kemur að þrifum og heimilishaldi. Sumt virkar bara alls ekki. Sumt hefur virkað í nokkrar vikur og annað í nokkra mánuði. Það er mjög mikilvægt að vera vakandi yfir því hvað má betur fara og hvernig fjölskyldan getur unnið betur saman. 

 

Það er góð regla sem gildir þegar kemur að þessu eins og öðrum samskiptum. Reglan er sú að tala um hvers við væntum við fólkið okkar. 

 

Í samkomubanninu kom ég upp með skipulag fyrir fjölskylduna sem var þannig að hver og einn var byrjaður á sinni rútínu (vinna/skóli) kl. 9:00. Allir sinntu því til kl. 11:00 og þá var leiktími. Klukkan 12 borðuðum við hádegismat saman og eftir það unnu allir húsverk við hæfi. Eftir það var lestrarstund og skjátími. Þetta plan hentaði vel þangað til börnin voru farin að týnast í skóla eitt af öðru. Þá þurfti að koma upp með nýtt plan. Undanfarnar vikur höfum við haft á prógramminu svokölluð “fimmtudagsþrif”. Ég prenta út skjal með verkefnum sem þarf að vinna, heimilisfólk velur sér verkefni og er markmiðið að heimilið sé orðið hreint og fínt fyrir helgina. Allir geta hjálpast að, sama á hvaða aldri þau eru. Sá yngsti sem er 4 ára vinnur yfirleitt verkefni með 7 ára bróður sínum. Þeir þurrka af eldhússtólunum, þurrka af sófanum í stofunni og laga til í herberginu sínu. Mikilvægast er að allir fái verkefni við hæfi og þeim sé kennt að vinna það vel. 

Heimilisþrif eru mikilvægur hlekkur í því að heimilið sé griðastaður án þess þó að þrifin gangi út í öfgar. Það eru ekki bara heimilisþrifin sem gera heimilið að griðastað heldur er það líka tilfinningin sem þú upplifir þegar þú kemur heim. 

 

Hvernig líður þér heima hjá þér?

Hvað getur þú gert til þess að skapa notalegt andrúmsloft heima hjá þér? Tónlist, ilmerkti, ilmolíur, inniplöntur, afskorin blóm, bökunarilmur. Þetta er samansafn hluta sem ég skilgreini sem “notalegt”. 

 

Ég hvet þig eindregið til þess að setjast niður með fjölskyldu þinni. Þú sem foreldri ert leiðtogi í þinni fjölskyldu. Þitt hlutverk er að leiða börnin þín áfram og vera fyrirmynd í orði og verki. Þú hefur ótrúlega mikil áhrif á gleðistuðulinn á heimilinu. Ef þú ert í vondu skapi getur það haft áhrif á líðan allra. Ég hef fundið það á mínu heimili að það er betra að tala um hluti sem mega betur fara áður en þeir verða að stórum snjóbolta. Ég þarf alltaf að vera að endurskoða hlutverkaskipan, heimilishald og annað sem fylgir stóru heimili. Sumt virkar og sumt ekki og það er allt í lagi. Það sem mestu máli skiptir er að við sem fjölskylda stöndum saman, sýnum hvort öðru kærleika og séum fús til að fyrirgefa og biðjast fyrirgefningar. 

 

Gangi þér sem allra best að finna skipulag sem hentar þér og þínum. 

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 






Ég vaknaði upp við vondan draum!

Ég vaknaði við vondan draum. Ég var mjög fegin að vera vöknuð og áttaði mig smám saman á því að þetta hafi bara verðið draumur. Samt sem áður sló hjartað hratt og augun voru farin að vökna. Mig hafði dreymt að ég var að flýja undan glæpagengi. Ég var föst í húsi, gísl ásamt lítilli stúlku. Allan drauminn var ég að reyna að flýja undan glæpamönnum sem höfðu eitthvað illt í huga. Við reyndum að komast í gegnum margar dyr og allt í einu opnaðist lítil hvít hurð og ég sá manninn minn. Ég hljóp til hans og við féllumst í faðma. Hann hafði verið að leita að mér, vissi að ég var í vandræðum og ég fann að ég var örugg. 

 

Þegar ég vaknaði áttaði ég mig á hvað þessi draumur hafði haft óþægileg áhrif á mig. Öryggi mínu hafði verið ógnað í draumnum og ég var skelfingu lostin. Þannig upplifðu lífið í nokkrar vikur í vetur og vor. Öryggi þeirra var ógnað og veiran yfirtók allt. En svo kom sumar. Fólk er nú farið að fallast í að faðma, snjórinn er farinn, sólin skín oftar og gleðistuðullinn vex. Þakklátt fyrir nýja tíma.

 

Þegar ég var lítil stelpa var ég mjög hrædd við að ganga fram hjá gömlu húsi í bænum sem ég bjó í. Ímyndunarafl mitt var mikið og ég óttaðist að inni í gamla kaupfélagshúsinu væri ísbjörninn sem ég hafði séð  úr þáttunum um Nonna og Manna. Í hvert skipti sem ég þurfti að fara framhjá húsinu hljóp ég eins hratt og fætur toguðu því ég var viss um að ísbjörninn ætlaði að ná mér.  Á bak við óöryggi er ótti. Stundum getum við óttast aðstæður, stundum getum við óttast fólk, stundum getum við óttast framtíðina. 

 

Ótti er oft eins og upplifun mín varðandi húsið og ísbjörninn. Ímyndunaraflið tekur völdin og við óttumst það versta. Í langflestum tilfellum er þetta svo óraunhæft að það mun aldrei gerast sbr. söguna um ísbjörninn. Það sem hefði  mun líklegar gerst er að ég hefði dottið í óttakastinu og fengið sár á hnén. 

 

Ertu til í að gera smá verkefni? 

 

Náðu í blað og penna. 

 

  1. Teiknaðu nú stóran hring á blaðið (á stærð við morgunverðarskál).
  2. Nú skaltu teikna mun minni hring inn í stóra hringinn (á stærð við glas).
  3. Nú skaltu teikna hring á stærð við tíkall inn í minni hringinn. 



Fyrsti hringurinn táknar allt það sem við ímyndum okkur að gæti gerst.

 

Næst minnsti hringurinn táknar allt það sem gæti mögulega gerst.

 

Minnsti hringurinn táknar það sem gæti gerst í alvörunni



Ótti hefur lamandi áhrif á líf okkar. Því er mjög mikilvægt að muna að leyfa honum ekki að ráða ferðinni. Ef við tökum alltaf ákvarðarnir út frá stærsta hringnum verður lítill árangur og lítill vöxtur en ef við veljum að stíga á móti óttanum og inn í hugrekkið þá gerast magnaðir hlutir. 

 

Hvenær notar þú orðin “Hvað ef…”? á neikvæðan hátt? 

 

  • Hvað ef ég klúðra þessu? 
  • Hvað ef þau segja nei? 
  • Hvað ef ég fæ ekki inngöngu? 
  • Hvað ef mér verður hafnað? 
  • Hvað ef hann/hún elskar mig ekki ekki? 
  • Hvað ef ….? 

 

Hvernig væri að prófa í einn dag að nota orðin Hvað ef….? á jákvæðan hátt? 

 

  • Hvað ef þetta gengur ótrúlega vel? 
  • Hvað ef þau segja já? 
  • Hvað ef ég fæ inngöngu? 
  • Hvað ef þau taka mér rosalega vel? 
  • Hvað ef ef hann/hún elskar mig? 
  • Hvað ef….? 

 

Oft veljum við að bregðast við á neikvæðan hátt til þess að vernda okkur. Við veljum að sjá fyrir okkur höfnunina, eða aðstæðurnar á neikvæðan hátt því við teljum að við séum að verja okkur fyrir sársauka. Er ekki betra að taka áhættuna, opna hjartað sitt og vera opin fyrir þeim tækifærum sem lífið færir þér? Jú, svo sannarlega. 

 

Gangi þér vel, 

Gunna Stella 





Fimm atriði sem gefa þér orku og aukin drifkraft

Þegar ég var 3 ára gömul skildu foreldrar mínir. Ég man eftir því sem barn að “öfunda” jafnaldra mína sem áttu foreldra sem voru ekki skilin. Ég gerði mér ekki grein fyrir því að það var ástæða fyrir því að þau skildu og það var ástæða fyrir því að þau voru ekki lengur saman. Í barnshuganum var sameinað hjónaband foreldra minna einhverskonar draumur sem ég þráði að yrði að veruleika. Frá barnæsku er okkur kennt að öfund sé ekki af hinu góða.

 

En öfund getur á vissan hátt hjálpað okkur að sjá hvert við viljum stefna með líf okkar og hvað við viljum gera. Hún getur vísað okkur í þá átt sem við viljum fara. 

 

Gagnvart hvaða fólki finnur

þú til öfundar? 

 

Fólk sem þorir að tala fyrir framan aðra

Þegar ég var unglingur öfundaði ég einstaklinga sem þorðu að tala á sviði frammi fyrir öðru fólki. Ég man enn í dag eftir tilfinningunni sem ég upplifði þegar ég átti að halda ræðu frammi fyrir bekknum mínum í fyrsta skipti sem unglingur. Ég held ég hafi rétt náð að stama nokkrum setningum upp úr mér. En ég vissi að þetta var eitthvað sem ég vildi geta gert. Ég öfundaði þá sem áttu auðvelt með þetta en í raun og veru öfundaði ég ekki einstaklinginn. Ég öfundaði fólk sem stjórnaðist ekki af óttanum við álit annarra.  Ég hefði aldrei trúað því þá að ég ætti eftir að starfa sem kennari og halda marga fyrirlestra og námskeið. Ég var ekki tilbúin á þeirri stundu að takast á við þennan ótta. Það kom seinna meir. En þetta var vegvísir. 

 

Börn sem alast upp með báða foreldra á heimilinu 

Frá því að ég var barn átti ég mér þann draum um að gifta mig, eignast börn og fá tækifæri til þess að ala börnin mín upp með manninum mínum. Ég þráði að börnin mín fengju að upplifa það að vera með mömmu og pabba á heimilinu. Það er ekki sjálfgefið. Það er margt sem getur komið upp upp á. Hjónabandi þarf að sinna og það þurfa báðir aðilar að leggja sig fram. Mörgum þótti það sérstakt að við hjónin ákváðum að gifta okkur tæplega 19. ára gömul. Við vorum búin að vera saman í tvo ár og vorum handviss um það þetta væri það sem við vildum. Við vorum tilbúin þó við  værum ung. Um þessar mundir erum við búin að vera gift í 20 ár. Ég er þakklát fyrir árin, þakklát fyrir hæðirnar, þakklát fyrir dalina, þakklát fyrir sólina, þakklát fyrir rigninguna. Allt sem við höfum gengið í gegnum saman hefur gert okkur sterkari.  

 

Það að spyrja sjálfan sig hver sé fyrirmynd eða hvað maður öfundar í fari einhvers getur leitt okkur okkur í þá átt að við áttum okkur á því að við viljum breyta einhverju í lífi okkar.



Í sumum tilfellum er hægt að upplifa öfund gagnvart hlutum sem við getum ekki breytt. Þá er mikilvægt að vinna að því að sætta sig við það sem fæst ekki breytt. 

 

Þess vegna er gott að spyrja sig líka “Hvers vegna við upplifum öfund?” og “Hvað þessi einstaklingar sem við “öfundum” eiga sameiginlegt? 

 

Þegar þú áttar þig á því hvað það er í fari einhvers einstaklings sem þú “öfundar” þá getur þú markvisst unnið að því að spyrja þig hvort þetta sé eitthvað sem þú vilt í lífi þínu. Ef svarið er já erum að gera að fara að taka skref í þá átt. 



Eftirtalin atriði geta hjálpað þér að hafa þá orku sem þú þarft á að halda til að breyta einhverju í lífi þínu. Þau geta hjálpað þér þegar þú þarft að upplifa kjarkinn til að taka ákvarðanir um breytingar. Ég finn mun þegar ég sinni þessum atriðum. Ég hef meiri orku, meiri framkvæmdarkraft og meira hugrekki til að taka skref í átta að draumum mínum. 

 

Þetta er á ensku kallað Five to thrive og kemur upphaflega frá einum af mínum uppáhalds rithöfundum, Rachel Hollis. 

 

1. Vaknaðu klukkustund fyrr en vanalega og notaðu þennan klukkutíma fyrir þig. 

 

2. Hreyfðu þig í 30 mínútur

 

3. Drekktu helming líkamsþyngdar þinnar í (ounces) á hverjum degi 

* Hér fyrir neðan eru dæmi (námundað). 

 

  • 60 kg = 2 lítrar
  • 65 kg = 2,1 lítri 
  • 70 kg = 2,3 lítrar
  • 75 kg = 2,4 lítrar
  • 80 kg =2,6 lítrar 

 

O.s.frv.

 

4. Hætta að borða/drekka einhverja matar/drykkjartegund í 30 daga, til þess að þú áttir þig á því að þú getur það!  

 

5. Skrifaðu niður 5 hluti sem þú ert þakklát/ur fyrir hvern dag. 

 

Ég hvet þig til að prófa þetta og vittu til, orkan og drifkrafturinn mun aukast! 

 

XOXO

Gunna Stella 














Hvaða tilgang hef ég?

Sonur minn slasaði sig á hjóli í síðustu viku. Hann var bólgin og með saum í vör og svaf illa nóttina eftir slysið. Þegar börnin mín eru veik eða slasa sig þá þá gerir móðureðlið það að verkum að ég er alltaf að vakna til að athuga hvort  sé í lagi með þau. Þessi nótt var eins. Drengurinn svaf við hlið mér,umlaði mikið og var illt. Ég var mjög glöð þegar morguninn kom því ég vissi að það versta væri yfirstaðið og nú tæki við lækningaferli. Drengurinn var duglegur að kæla vörina allan daginn með frosnu jarðarberi í poka. Þvílíkur munur. Bólgan hjaðnaði og á einum degi gat hann drukkið úr glasi á venjulegan hátt án þess að nota rör. Þennan dag sat drengurinn mikið í sófanum. Hann gat lítið annað gert enda stokkbólgin og frekar lurkum laminn. Hann horfði á kvikmyndir og þætti og átti notalega stund. Ein kvikmyndin sem hann horfði á fjallaði um strumpana. Það sem mér þótti merkilegt við myndina var hversu góð lýsing var á því hvernig hver strumpur hafði sitt hlutverk. Það er svo sem ekki eins og ég hafi aldrei horft á strumpana áður en ég hafði aldrei hugsað þetta í þessu samhengi. Bakastrumpur bakaði, fýlustrumpur var í fýlu, gáfnastrumpur hafði eitthvað gáfulegt að segja, kraftastrumpur var sterkastur og svo mætti lengi telja. En svo var það hún Strympa. Í myndinni er sérstaklega tekið fram að Strympa var lengi búin að reyna að finna hvert hennar hlutverk væri. Hún klúðraði bakstrinum, hún gat ekki verið í fýlu, hún átti erfitt með að læra staðreyndir og hún var ekki sterk. En hún var að leita að sínu hlutverki og reyna að átta sig á því hver hún var. 

 

Mér fannst þetta mjög áhugaverð nálgun. Það er svo mikilvægt fyrir öll okkar hvort sem við erum strumpar eða menn, að hafa tilgang. Það er svo mikilvægt fyrir okkur að hafa eitthvað til að vakna til á morgnana. Það er svo mikilvægt að við upplifum okkur hluta af einhverju stærra, einhverri heild. Það að hafa tilgang getur breytt líðan okkar andlega og líkamlega. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk sem hefur tilgang lifir lengur, er heilbrigðara og almennt sáttara í lífinu. 

 

Það sem vill þó oft gerast er að lífið “bara gerist.”  Við upplifum ábyrgð gagnvart fólki, samstarfsmönnum, fjölskyldu og vinum og allt í einu gefst lítill tími  til þess að átta sig á hvað það er sem maður raunverulega vill fyrir líf sitt. Þess vegna er mikilvægt að vera tilbúin að endurskoða líf sitt. Skoða hvort það sem þú ert að setja mesta tíma þinn í sé það sem skipti þig mestu máli eða hvort þú þurfir jafnvel að endurraða og endurskoða. Fordæmalausir tímar og allt sem honum fylgir gefur okkur einmitt tækifæri til þess að huga að framtíðinni, hvað það er sem skiptir okkur mestu máli og hvert við viljum stefna. 

 

Ef þú upplifir þig eins og Strympu, þ.e að þú vitir ekki hver tilgangur þinn er þá hefur þú tækifæri til að byrja að vinna í því í dag. Strympa þurfti að fara í vegferð til að átta sig á hver hennar tilgangur var og komst að því að lokum (án þess að ég uppljóstri um það hvernig myndin endar). Það sama á við um þig. Þú hefur tilgang. Þú hefur frábæra hluti að færa inn í samfélagið okkar. Þú hefur sögu að segja. Hver er þín saga? 



Til þess að kafa betur ofan í þetta. Hvet ég þig til að hlaða niður skjalinu “Hver er tilgangur minn?” og svara spurningunum sem eru þar.  Þú getur smellt hér til þess að hlaða því niður. 

 

Gangi þér vel 

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 

 


Hvað ef við verðum aldrei aftur eins?

“Íslendingar ættu að vera undir það búnir að einhverskonar takmarkanir vegna kórónuveirunnar gætu verið í gildi út þetta ár, sem ráðist þó af þróun faraldursins. Það er þó ekki eins og himinn og jörð farist þó svo að landsmenn lifi fábrotnu lífi út árið, það sé hinsvegar vel þess virði” sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. 

 

Þetta er svo mikið rétt hjá Þórólfi. Himin og jörð mun ekki farast þó svo að við lifum fábrotnara lífi. En hvað er fábrotið líf? Þarf fábrotið líf að þýða að lífið sé erfiðara eða getur það hreinlega þýtt að lífið sé einfaldara? 

 

Margir íslendingar hafa upplifað mikinn hraða í lífi sínu undanfarin ár. Fólk hefur verið í kapphlaupi við tímann og jafnvel ekki náð að sinna sjálfum sér eða sínum nánustu nægilega vel. Nú hefur okkur verið gefið nýtt tækifæri til þess að forgangsraða upp á nýtt. Tími til þess að hugleiða, hugsa og skoða hvert það er sem við viljum stefna með líf okkar.

 

Fyrir nokkrum árum síðan komst ég á þann stað í lífi mínu að ég þráði að forgangsraða á annan hátt. Mér fannst ég ekki hafa tíma fyrir það sem skipti mig mestu máli og fannst dagarnir fljúga frá mér og lítið sitja eftir annað en að sinna vinnu og helstu heimilisstörfum. Þá hóf ég vegferð mína í átt að einfaldara lífi. Ég fór markvisst að skoða hvernig ég gæti einfaldað lífið, hvernig ég gæti einfaldað heimilið, hvernig ég gæti einfaldað dagskrána mína, hvernig ég gæti einfaldað þau verkefni sem ég tók að mér og hvernig líf mitt gæti í heildina orðið einfaldara þó svo ég hefði í nógu að snúast.

 

Þegar ég lít til baka er ég ótrúlega þakklát fyrir að hafa hafið þessa vegferð. Hún hefur haft mótandi áhrif á líf mitt og líf mitt í dag er langt frá því að vera eins og það var áður. En þarf einfalt líf að vera óspennandi? Nei, alls ekki. Því skilgreiningin sem ég hef á einföldu lífi þarf alls ekki að vera sú sama og þín. Það sem ég hvet einstaklinga til að gera á námskeiðinu mínu Einfaldara líf - Betra líf er að skoða hvaða ástæður liggja að baki því að fólk vilji einfalda. Skoða svo hvað það vill forðast og setja svo saman yfirlýsingu sem hjálpar þeim að halda áfram að taka skref í átt að einfaldara lífi á hverjum einasta degi.

 

Svo margir upplifa þessa tíma skrítna, sem þeir svo sannarlega eru. En hvað ef við notum þá til þess að læra eitthvað nýtt. Hvað ef við notum þennan tíma til þess að vaxa sem einstaklingar?

 

Hvað ef við verðum aldrei aftur eins, heldur betri útgáfa af sjálfum okkur? 

 

Ég hvet þig til þess að skoða líf þitt á heiðarlegan hátt. Viltu fara aftur í sama hraða eða er kannski gott að fá mörk og þurfa að lifa fábrotnara lífi en áður?  Ég held að við getum komið út úr þessum tíma sterkari og heilbrigðari á anda, sál og líkama ef við veljum að fara í þá átt. 

 

Til þess að hjálpa þér að hefja þína vegferð í átt að einfaldara lífi hef ég ákveðið að bjóða upp á ókeypis aðang að fyrsta fyrirlestrinum á námskeiðinu mínu Einfaldara líf - Betra líf. Þessi fyrirlestur er grunnurinn sem þarf að byggja á þegar þú byrjar að einfalda líf þitt. Ég hvet þig því til þess að gefa þér tíma til að hlusta og vinna verkefnið sem fylgir með. 

 

Þú getur smellt hér til að hlusta! 

 

Kærleiks “rafrænt” knús

 

Gunna Stella 








 









Drífðu þig heim kona!

Nokkur ótti hefur gripið um sig á Íslandi og í heiminum öllum. Fólk óttast veiru sem oftast er kölluð Kórónaveira en ber víst nafnið Covid 19. Fréttir um veiruna og hvaða löndum hún hefur greinst í taka mikið pláss í fréttatímum.

 

Ég skil þennan ótta vel. Ég skil að fólk óttist hið óþekkta. Mér er minnisstætt þegar fuglaflensan greindist í fyrsta sinn og ég var ung móðir. Um leið og ég heyrði fréttina var ég búin að skipuleggja flótta. Ég var búin að skipuleggja í huga mér hvar ég og fjölskylda mín myndum fara í einangrun ef svo ólíklega vildi til að flensan  kæmi til Íslands. Það sem ég vissi ekki þá var að kvíðinn var að stjórna mér.

Kvíði skiptist nefnilega í nokkur stig og í ótta mínum og angist vildi ég flýja og forðast aðstæður. Það er eðlilegt að svo mörgu leiti. Við höfum innbyggt kerfi í okkur sem fær okkur til að forðast hættur. Í þessum skrifuðu orðum er ég stödd á Tenerife með hópi kvenna. Í fyrra þegar ég fór í svipaða ferð og konur úr ferðinni deildu myndum á samfélagsmiðlum rigndi yfir þær jákvæðum kveðjum þar sem fólk óskaði þess að þær myndu njóta í sólinni. Í þessari ferð er það öðruvísi. Fólk sendir skilaboð, biður okkur að fara varlega og passa okkur á veirunni. Drífa okkur heim og þar fram eftir götunum. Það er svo sem ekkert skrítið þar sem flestir fréttamiðlar fjalla um lítið annað en Kórónaveiruna og um hana er líka mikið rætt á samfélagsmiðlum. Sem aldrei fyrr hafa börn aðgang að fréttaveitum og samfélagsmiðlum og það sem öll þessi umfjöllun getur valdið  börnum ótrúlega miklum ótta. Það er mikilvægt að hvetja fólk til handþvottar og hreinlætis til þess að forðast að smitast af veiru sem þessari en það er líka ótrúlega mikilvægt að passa upp á andlega líðan þjóðarinnar og þá sérstaklega barnanna okkar. 

 

Ég var ótrúlega ánægð þegar ég rakst á síðu hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO þar sem hvatt er til þess að huga að andlegu jafnvægi fólks á öllum aldri nú þegar umræðan um veiruna er í hámæli. Þar segir eftirfarandi: 




  1. Það er eðlilegt að vera sorgmæddur, stressaður, óöruggur, hræddur eða reiður á erfiðleikatíma. Að ræða við fólk sem þú treystir getur hjálpað. Hafðu samband við vini og vandamenn.
  2. Ef þú verður að vera heima skaltu viðhalda heilbrigðum lífsstíl - þar með talið góðu mataræði, svefni, hreyfingu og félagslegum samskiptum við ástvini heima og með tölvupósti og síma. 
  3. Fáðu staðreyndir. Safnaðu upplýsingum sem hjálpa þér að ákvarða áhættu þína nákvæmlega svo þú getir gripið til hæfilegra varúðarráðstafana. Finndu trúverðuga heimild sem þú getur treyst, svo sem vefsíðu WHO eða, heilbrigðisstofnun sveitarfélaga eða ríkis.
  4. Takmarkaðu áhyggjur og óróleika með því að draga úr þeim tíma sem þú og fjölskylda þín eyðir í að horfa á eða hlusta á umfjöllun fjölmiðla sem þér finnst valda þér og ykkur uppnámi.
  5. Nýttu þér reynslu sem þú hefur upplifað áður, sem hefur hjálpað þér að takast á við erfiðleika í fortíðinni og notaðu þessa færni til að hjálpa þér að hafa stjórn á tilfinningum þínum á þessum krefjandi tíma.

 

Ég held að það sé mikilvægt að við tölum meira við börnin okkar um að það sé eðlilegt að vera stressaður og upplifa óöryggi. Til þess að hjálpa þeim er samt mikilvægt að við ölum ekki á ótta og takmörkum áhyggjur þeirra með því að reyna að hjálpa þeim að takast á við óttann. Til þess að hjálpa þeim að horfast í augu við óttann og hjálpa þeim að upplifa frið í hjarta þurfum við að vanda orðaval okkar og takast á við óttann í eigin lífi. Við þurfum líka að vanda skrif okkar og reyna að verða ekki hugsjúk eða fá þráhyggju gagnvart þessari leiðinlegu veiru. 

 

Þér er velkomið að fylgjast með ferðinni á Instagram og Facebook. 

Friðar og kærleikskveðja, 

 

Gunna Stella 




Líkami minn kallar á 24:1 hleðslu

Undanfarna mánuði hef ég verið að æfa mig í að taka einn sólahring í viku þar sem ég legg alla vinnu til hliðar, loka tölvunni, slekk á netinu í símanum mínum og geri það sem mig langar til að gera þann daginn. Það er mjög sérstök tilfinning að vera aftengd samfélagsmiðlum. Fyrst þegar ég gerði þetta hélt ég að ég væri að missa af einhverju. Það merkilega kom hinsvegar í ljós er að lífið heldur áfram þó svo að ég slökkvi á netinu í einn sólahring. Fólkið sem ég umgengst mest er líka farið að átta sig á því að það þýðir ekki að ná í mig þennan dag í gegnum samfélagsmiðla. Því þarf fólk að taka upp símann og hringja. 

 

Tilhneiging flestra er sú að við förum í gegnum vikuna á sjálfstýringu, bíðum eftir helginni, notum helgina til að vinna upp það sem bíður okkar eftir brjálaða viku og höldum svo þannig áfram viku eftir viku. Staðreyndin er hinsvegar sú að við þurfum öll á hvíld að halda. Við þurfum reglulega að stinga okkur í hleðslu rétt eins og við setjum símann okkar í hleðslu. 

 

Í raun er enginn ein leið til að eiga sem bestan hvíldarsólahring. Það sem mestu máli skiptir er að þú staldrir við, minnkir áreiti og gerir það sem hleður þig. Á námskeiðum hjá mér hvet ég þátttakendur oft til að skrifa hleðslulista. Ég bið þau að sjá fyrir sér að þau séu sími sem þarf reglulega á hleðslu að halda. Sum hleðslutæki hlaða hraðar en önnur og sum símaforrit draga meiri hleðslu af símanum en önnur. Rétt eins og sími þá þurfum við á reglulegri hleðslu að halda. 

 

Þegar ég skoða hleðslulistann minn þá átta ég mig á því að ég elska útiveru, nærist á lestri góðra bóka, elska að borða góðan mat og nýt þess virkilega að vera í kringum fjölskyldu mína og annað fólk sem ég finn að hefur góð áhrif á mig. 

 

Það er leyndardómur í því að stunda hvíld. Það er munur á hvíld og frídegi. Á frídegi erum við að sinna heimilinu, þvo þvott og græja aðra hluti sem við náum ekki að græja í vikunni. Á hvíldardegi hefurðu góða afsökun til þess að læra að hægja á, njóta þess sem þú átt í lífinu, stunda samfélag við fólk sem þú elskar að vera í kringum og sinna áhugamálum þínum og leggja alla vinnu til hliðar í sólahring. 

 

Það merkilega er að þegar ég fór fyrst að taka frá einn sólahring í vikunni til þess að stunda markvissa hvíld þá kveið ég fyrir því. Ég vissi ekki hvað ég ætti að gera við tímann minn, hvernig ég gæti undirbúið það og hvað ég ætti að gera. Í dag þá skil ég ekki hvernig ég fór að því að keyra mig stöðugt áfram í hraðanum. Vinna jafnvel á hverjum einasta degi og sleppa því að gera hluti sem nærðu anda minn, sál og líkama. 

 

Ég hvet þig til þess að skrifa niður hleðslulista. Ég hvet þig til þess að skoða hvað það er sem endurnærir þig og hleður þig til anda, sálar og líkama. Ég hvet þig til að staldra við og hægja á, aftengjast netinu og stunda einn góða hleðslusólahring í viku. 

 

Fyrir þá sem eru að byrja er gott að byrja á hálfum sólahring og auka það svo smám saman. En vittu til,því fleiri hleðsludaga sem þú átt því meira fer líkami þinn að “rukka” þig um hleðsludaga. 

 

Ef þú vilt vita meira hvernig þú getur hægt á og einfaldað lífið þá hvet ég þig til að skrá þig á póstlista hjá mér og fylgjast með á samfélagsmiðlum

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 







Er einfaldara líf vísir á langlífi?

Fyrir nokkru síðan heyrði ég frábæran fyrirlestur með Dan Buettner sem bar yfirskriftina "Blue Zones" eða "Blá svæði". Síðan meir las ég bækurnar hans og var mjög hrifin af því sem hann hafði skrifað. Eftir margra ára rannsóknir á vegum National Geographic og hans sjálfs (Dan Buettner), hefur verið sýnt fram á að í heiminum eru a.m.k. 5 svæði (svokölluð blá svæði) sem hafa að geyma vísbendingar um það hvernig hægt er að lifa lengra og betra lífi. Þessi bláu svæði eru á eftirfarandi stöðum:

 

Sardinía á Ítalíu

Ikaría á Grikklandi

Nicoya Peninsula á Kosta Ríka

Aðventistar í Loma Linda í Kaliforníu

Okinawa í Japan

 

Fyrrgreindar rannsóknir hafa sýnt að það eru 9 atriði sem einkenna lífsstíl þessara hópa.

  1. Það hreyfir sig: Við erum ekki að tala um  kraftlyftingar og maraþon heldur styður lífsstíll þeirra hreyfingu t.d. með því að ganga mikið. Þeir eru ekki háðir tækjum og vélum heldur nota þeir líkama sinn til vinnu t.d með því að rækta garða ofl. 
  2. Það hefur tilgang:  Það hefur eitthvað að stefna að og hefur ástæðu til að vakna á morgnana.
  3. Það dregur sig í hlé (afstresssar sig): T.d með bæn, með því að hvíldardag og leggja sig jafnvel yfir miðjan daginn.
  4. Það heldur 80% regluna: Þau hætta að borða áður en þau verða pakksödd og borða minna eftir því sem líður á daginn.
  5. Það borðar plöntumiðaða fæðu. Kjöt einstaka sinnum.
  6. Það tilheyrir trúarsamfélagi: Samkvæmt rannsókninni getur það að sækja trúarsamfélag 4x í mánuði lengt lífið að meðaltali um 4-14 ár.
  7. Það drekkur vel valið vín í hófi: (Aðventistar í Loma Linda eru undantekning frá þessari reglu):  En það drekkur vín í hópi vina eða með mat og drekkur sig ekki drukkið.
  8. Það setur fjölskylduna sína í fyrirrúm: Það sinnir maka sínum, börnum og ættingjum vel. Börn umgangast eldra fólk og eldra fólk umgengst börn.
  9. Það á nána vini: Vini sem það getur opnað hjarta sitt fyrir og hittir þá reglulega.

Blue Zones-4

Ég man hvað mér fannst þetta áhugavert og bjó því til fyrirlestra og hélt námskeið um þetta efni. Nýlega komu síðan út íslenskir sjónvarpsþættir um þessi Bláu svæði, sem eru frábærir. Þeir útskýra vel og vandlega hvað einkennir þessa hópa og útskýra vel hvað er hægt að gera til þess að stuðla að betri heilsu.  Það sem einkennir alla þessa einstaklinga og öll þessi svæði er að fólk lifir Einföldu lífi. Það lætur ekki hraðann yfirtaka líf sitt, það nýtur þess að vera með fólkinu sínu, gefur náunganum athygli, borðar einfalt en næringarríkt fæði og lifir í núinu. 

 

Bronnie Ware, ástralskur hjúkrunarfræðingur vann í nokkur ár við það að hugsa um fólk síðustu 12 vikur lífs þess. Mjög reglulega spurði hún fólkið hvort það hefði einhverja eftirsjá eða hvort það hefði gert eitthvað öðruvísi. Bronnie talaði um að fólk hefði mjög oft haftskýra sýn á það hvernig það hefði svo gjarnan viljað hafa líf sitt og það var reglulega sama þema sem kom upp hjá ólíku fólki. 

Að lokum skrifaði hún bókina “The Top Five Regrets of the Dying.” (Fimm algengustu eftirsjár við dauðadag). 

Þær eru: 

  1. Ég vildi óska að ég hefði haft hugrekki til að lifa lífi þar sem ég var samkvæmur sjálfum mér, ekki því sem aðrir ætluðust til af mér.
  2. Ég vildi að ég hefði ekki unnið svona mikið. 
  3. Ég vildi að ég hefði haft hugrekki til að tjá tilfinningar mínar. 
  4. Ég vildi að ég hefði haft meira samband við vini mína. 
  5. Ég vildi að ég hefði leyft mér að vera hamingjusamur. 

Í venjulegu nútímasamfélagi er mikill hraði. Fólk sinnir vinnu. Börnin eru í skóla, leikskóla og tómstundum og fjölskyldan eyðir oft minni tíma saman og meiri tíma í sundur. Foreldrar eru uppfullir af samviskubiti og kaupa börnin sín glöð. Fyrir nokkrum árum var í Bandaríkjunum um 1 milljón dollara eytt í auglýsingar árlega sem áttu að ná til barna. Í dag er þessi upphæð 17 milljarðar dollara. Af hverju ætli þessi auglýsingaiðnaður nái til barna? Jú eflaust vegna þess að þau nota snjalltæki mikið og horfa mikið á sjónvarpið.

Hverju munum við sjá eftir þegar kemur að lok ævinnar? Munum við sjá eftir að hafa ekki keypt meira á útsölum? Munum við sjá eftir að hafa ekki átt fleiri skópör eða stærri fataskáp?

Mun ég sjá eftir að hafa ekki keypt nýjasta Iphone-inn handa börnunum mínum? 

 

Nei! Það sem fólk sér einna helst eftir er að hafa ekki átt tíma með fjölskyldu og vinum. Það er svo margt sem við getum lært af Bláu svæðunum. Við getum lært að leggja flýtiveikina til hliðar, við getum lært að einfalda lífið, við getum lært að njóta hverrar stundar, við getum lært að stunda hvíld, við getum lært að gleðjast og vera þakklát. 

Viltu minnka hraðann og einfalda lífið? Skráðu þig þá á endilega á námskeiðið Hægjum á, einföldum lífið sem verður í húsnæði Lausnarinnar þriðjudaginn 11. Febrúar kl. 18-21. Námskeiðið er ein kvöldstund og þar mun ég týna upp úr pokanum góð verkfæri sem hægt er að nýta sér til þess að minnka hraðann og einfalda lífið. 

 

Miðsala fer fram á Tix. Smelltu hér til að nálgast miða. 

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 

 

Þú getur fylgst með mér á samfélagsmiðlum með því að smella hér















Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband