Ólétt og grátandi á nýársdag

Nú er komin nýr áratugur, nýir tímar. Á þessum tíma fyrir tíu árum var settur dagur hjá mér með annað barnið mitt.  Ég man eftir þeim áramótum eins og gerst hafi í gær. Ég var kasólétt. Algjörlega að springa. Á gamlárskvöld fengum við fólk í mat. Ég stússaðist í eldhúsinu lengi vel, eldaði, vaskaði upp og vakti langt fram á kvöld. Á nýársmorgun vaknaði ég, ryksugaði húsið og gekk frá eftir gamlárskvöld og fór svo í mæðraskoðun. Þar var ég kyrrsett. Með allt of háan púls og allt of háan blóðþrýsting eftir jóla- og gamlárskvöldsatið. Ég fékk að fara heim eftir að þeir sáu að blóðþrýstingurinn lækkaði við hvíld en fékk þær leiðbeiningar að ég mætti ekki gera neitt. Ég ætti að taka því rólega og sitja, lesa, horfa á sjónvarpið og bara vera. Vitið þið hvað ég gerði. Ég fór heim og fór að grenja. Mér fannst ömurlegt að mega ekki gera neitt. 

 

Þegar ég hugsa um þennan tíma þá hristi ég hausinn yfir því hvernig ég lét. En málið er að þarna var ég svo háð því að vera stanslaust að gera, framkvæma, koma einhverju í verk að ég kunni ekki bara að vera. 

 

Hluti af vegferð minni í átt að einfaldara líf er að læra að vera. Ég er svo langt frá því að vera orðin fullkomin í því, en ég er að á vegferð. Ég held að hluti af vandamálum nútímamannsins er að það er mjög mikill hraði í þjóðfélaginu. Það er svo mikið að gera hjá öllum. Ef við erum spurð hvernig við höfum það þá er svarið oft “bara fínt, bara brjálað að gera”. Það skiptir ekki máli hvort við erum unglingar í framhaldsskóla, nýir foreldrar, fólk í háskóla, fullorðið fólk, framkvæmdarstjórar, leikskólakennarar, Ameríkanar, Íslendingar… það hafa allir brjálað að gera. Þess vegna held að ég það hafi verið að sumu leyti gott fyrir okkur að fá svona mikinn lægðagang yfir landið okkar. Allt í einu höfum við ekki stjórn og þurfum að lúta veðrinu. Það er góð æfing í því að vera. 

 

Rithöfundurinn John Ortberg vísar í það hvernig hann hafði brjálað að gera og var komin á kaf í vinnu. Allt leit vel út á yfirborðinu en innst inni leið honum ekki vel, var ekki sáttur. Á þessum tíma hringdi hann í góðan vin sinn Dallas Willard sem er líka rithöfundur og spurði hann hvað hann ætti að gera. Á hinni línunni kom löng þögn þangað til Dallas Willard sagði “Þú þarft miskunnarlaust að útrýma flýti úr lífi þínu”. John Ortberg skrifaði þetta niður og spurði aftur. En er eitthvað meira? Þá kom aftur löng þögn þangað til Dallas Willard sagði

 

“Nei, það er ekkert annað.Flýtir mesti óvinur andlegs lífs á okkar dögum. Þú þarft miskunnarlaust að útrýma flýti úr lífi þínu.” 

 

Það er svo mikið til í þessum orðum. Ég upplifi mig á þessum stað. Ég þarf að útrýma flýti úr lífi mínu. Ég þarf að læra að vera. Ég er komin lengra en ég var á nýársdag árið 2010 þar sem ég grét yfir því að þurfa að slappa af, kasólétt. Í dag er ég farin að njóta kyrrðarinnar, njóta þess að sitja kyrr, lesa bók, drekka kaffibollann minn en stundum á ég það til ennþá að flýta mér of mikið. 

 

Í lok hvers árs geri ég upp árið sem er að líða og skoða á hvað ég vil fókusa á, á nýju ári. Ég vel mér alltaf orð sem ég vil einblína á. Einn daginn var ég að keyra og var ein í bílnum (sem er sjaldgæft). Ég fór að hugsa um hvaða orð ég vildi fókusa á fyrir árið 2020 og allt í einu hoppaði orðið jafnvægi í huga mér. Þetta orð sat svo fast að ég vissi það á þeirri stundu að þetta var orðið mitt. Orðið sem ég þurfti að hafa í huga. Þegar ég fór að skoða það betur áttaði ég mig á því að það er mjög margt sem ég þarf að læra að hafa í jafnvægi.. 

 

En hvernig lítur jafnvægi út? Í upphafi árs sé ég fyrir mér að ég þurfi að ná jafnvægi á þessum sviðum. 

 

  1. Jafnvægi á milli þess að þjóta og njóta
  2. Jafnvægi á milli vinnu og hvíldar
  3. Jafnvægi á milli samveru og einveru
  4. Jafnvægi á milli þess að vera heima og ferðast 
  5. Jafnvægi á milli þess að borða hollt og minna hollt
  6. Jafnægi á milli bænar og þagnar
  7. Jafnvægi á milli þess að skrifa og lesa
  8. Jafnvægi á milli þess að vera sítengd og aftengd netheiminum
  9. Jafnvægi á milli fjölskyldutíma og stefnumóta með eiginmanninum
  10. Jafnvægi á milli hreyfingar og hugleiðslu



Og síðast en ekki síst, jafnvægi á milli þess að segja já og nei! 

 

Í dag finnst okkur það vera ókostur ef hlutirnir gerast hægt. Ef við fáum ekki svar strax við tölvupóstinum. Ef við þurfum að bíða of lengi eftir mat á veitingahúsi. Ef við þurfum að standa of lengi í röð. En ég held að við þurfum að læra að bíða og vera.  Þegar við stöndum í biðröð, eða lendum á eftir bíl sem keyrir hægt gæti það verið gott tækifæri fyrir okkur til að vera. Læra að bíða og taka eftir því sem gerist í kringum okkur án þess að fara í símann. 

 

Við heyrum fólk svo oft segja, “bara gott, bara brjálað að gera” að við erum farin að halda að það sé bara allt í lagi. Það sé gott. Allir eru hvort sem er uppteknir og hafa brjálað að gera. En hvað ef það að hafa brjálað að gera sé ekki hollt fyrir okkur. Hvað ef það er eins og smitsjúkdómur sem smitast manna á milli og er hættulegur fyrir okkur. 

 

Í hraða sýni ég ekki elsku, í hraða sýni ég ekki þolinmæði, í hraða hlusta ég ekki á náungann og gef fólki tíma. 



Þess vegna er eitt af mínum atriðum á jafnvægislistanum að hafa jafnvægi á milli þess að þjóta og njóta og vera og gera. Þá verð ég kærleiksríkari, þolinmóðari í alla staði. 

 

Hvernig myndi þinn jafnvægislisti líta út? Ég hvet þig til að skoða málið. Ég mun fjalla oft um jafnvægi á árinu á samfélagsmiðlum. Þú getur fylgst með á Instagram og Facebook. Hlakka til að sjá þig þar! 

 

Jafnvægiskveðja, 

Gunna Stella 








Njóta ekki þjóta!

Nú er aðventan gengin í garð. Aðventa er ljúfur tími að svo mörgu leiti. Það er tíminn þegar beðið er eftir jólunum og út um allt hljóma skilaboð um allskonar hluti sem við ættum að prófa, gera, smakka og kaupa. 

 

Þegar ég var barn beið ég spennt eftir jólunum en svo minnkaði hann  eftir því sem ég varð eldri og barnæskan var að baki. Þegar ég svo eignaðist mín eigin börn fór ég að njóta aðventunnar á allt annan hátt og í dag upplifi ég þennan spenning í gegnum börnin mín. Það er yndislegt. 

 

En þegar kemur að aðventunni þá upplifa margir streitu. Ég hef oft ákveðið fyrir aðventuna að ég ætli að eiga rólega, ljúfa og yndislega aðventu. Síðan gerist lífið  og áður en ég veit er ég búin að gleyma mér í áreitinu og farin að stressast upp eins og umhverfið í kringum mig. Með árunum hef ég þó lært að reyna að njóta hverrar stundar. Hérna áður fyrr var ég alltaf að bíða eftir einhverju sem var að fara að gerast í stað þess að staldra við í núinu og njóta þess sem fyrir augum bar. Njóta andartaksins, njóta kyrrðarinnar, njóta hlátursins, njóta jólaljósanna, njóta þess að horfa á stjörnurnar, njóta kaffibollans og njóta bókarinnar. Að njóta gerist ekki af sjálfum sér. Oftar en ekki þurfum við að velja að vera í núinu. Nota núvitund í deginum sem er að líða. 

 

Jólin og aðventan tengjast oft mat. Við borðum mjög oft án þess að spá eitthvað nánar í því. Við troðum í okkur á meðan við erum að vinna í tölvunni, horfa á sjónvarpið eða þegar við erum á ferðinni. Við njótum matarins hinsvegar betur þegar við njótum stundarinnar og upplifum matinn með öllum skynfærum. Í mínu starfi sem heilsumarkþjálfi hafa margir markþegar talað um að mesta áskorunin í mataræði um jólin sé einmitt konfektkassinn eða sú áskorun að það er eitthvað góðgæti í boði hvert sem þú ferð. Það er ekkert að því að fá sér einn og einn mola á aðventunni, en þegar þú færð þér mola þá hvet ég þig til þess að njóta hvers bita sem þú setur upp í þig. Ef þú borðar með núvitund eru svo miklu minni líkur á því að þú borðið yfir þig eða klárir konfektkassann. 

 

 

Ef þú smellir hér getur þú nálgast hefti sem heitir Núvitund í mataræði. Þetta er ókeypis hefti sem hjálpar þér að læra hvernig þú getur notað öll skynfærin þegar þú borðar og notið hvers bita. Aftast í heftinu er uppskrift af Brúnni lagtertu sem er í hollari búning. Það þýðir samt ekki að hún sé svo holl að maður ætti að borða hana alla í einu. Heldur er þetta tækifæri til þess að borða og njóta hvers bita.Oft gleymum við nefnilega að finna lyktina í kringum okkur, horfa á umhverfið, njóta kuldans og leyfa okkur að upplifa og vera. 

 

Ég vona að þú eigir eftir að njóta aðventunnar. 

 

Jólakveðja, 

Gunna Stella 

 


Ertu búin að öllu?

Þegar kemur að aðventunni þá upplifa margir streitu. Ég hef oft ákveðið fyrir aðventuna að ég ætli að eiga rólega, ljúfa og yndislega aðventu. Ég hef ákveðið að ég ætli ekki missa mig í þrifum, bakstri, jólagjafainnkaupum og þess háttar. Ég fer kannski sæl og glöð inn í aðventuna en svo byrjar áreitið. Fólk spyr ,,Gunna, ertu búin að öllu?” Ha, öllu? Hvað meinarðu? Jú, öllu auðvitað, t.d. bakstrinum, þrifunum, innkaupunum! Úff, ég veit ekki með ykkur en ég upplifi stundum að svona spurningar geti valdið mér streitu og óþarfa áhyggjum, þó ég viti spurt sé af kærleika og umhyggju. 

 

Hvað er allt? Þetta allt er hægt að skilgreina á svo margvíslegan hátt. Hjá mér er allt þegar ég er búin að búa til jóladagatal fyrir fjölskylduna sem eykur samverustundir, gæðastundir og góðar minningar. Hjá mér er allt þegar ég hef keypt jólagjafir á hagstæðan hátt og bakað jafnt og þétt yfir aðventuna og leyft börnunum mínum og manninum mínum að gúffa kökurnar í sig á ógnarhraða. Hjá mér er allt þegar ég hef átt tíma til að setjast niður í rólegheitunum og drekka kaffi með góðum vinum. Hjá mér er allt þegar ég hef getað sest niður og lesið góða bók. Hjá mér er allt þegar ég hef ákveðið hvað á að vera í matinn á aðfangadag og passað upp á að eiga eitthvað hollt og næringarríkt til að börnin og við hin fullorðnu getum nartað í þess á milli. Hjá mér er allt þegar ég hef horft á margar misgóðar jólamyndir með fólkinu mínu. Hjá mér er allt þegar ég næ að njóta líðandi stundar. 

 

Hvert er þitt ALLT? 

Ekki láta aðra skilgreina fyrir þig hvað þitt “allt” er. Þú þarft að vita hvað það er sem þú vil gera á aðventunni og þú þarft að vita hvað það er sem veitir þér og þinni fjölskyldu gleði og ánægju. 

Mín hvatning til þín í dag er að þú skoðið það vel og vandlega hvernig þú getur notið aðventunnar og líðandi stundar og ég hvet þig til þess að spyrja einungis sjálfan þig hvort þú sér búin að öllu. Því að þitt allt er kannski allt annað en mitt allt. 

 

Ef þú vilt fá nokkur góð ráð varðandi það hvernig hægt er að einfalda aðventuna þá getur þú nálgast þau hér

 

Eigðu góða aðventu, 

Gunna Stella 

 






Ertu í fríi í fríinu?

Fyrir tveim vikum síðan fórum við hjónin í fjögurra daga ferð til Kanarýeyja. Það var afar ljúft að breyta aðeins til og fá smávegis frí. Ég var tvístígandi varðandi það hvort ég ætti að taka tölvuna mína með. Ég hef mjög gaman af því að skrifa og er að vinna að mjög spennandi verkefni þessar vikurnar. Ég sá fyrir mér að geta skrifa allan tíman í flugvélinni (heilar 5 klukkustundir og 40 mínútur) og hið sama á heimleiðinni. Ég var samt komin í þörf fyrir “hleðslu”. Ég líki líkamanum okkar oft við síma. Við þurfum að stinga reglulega í samband og hlaða okkur sjálf til þess að halda fullri orku. Það er misjafnt hvað er á okkar hleðslulista en vinnan okkar á í raun ekki að vera á honum þó svo okkur finnist hún skemmtileg eins og mér finnst mín. Ég ákvað því að skilja tölvuna eftir. Eftir smá stund náði ég í hana aftur og pakkaði ofan í tösku. Ég hélt á töskunni út að bíl og hugsaði mig tvisvar um. Hvað var ég að gera? Ætlaði ég ekki að nota þessa þrjá daga til að hlaða. Til þess að endurnæra mig til þess að ég hefði ennþá meiri orku þegar ég kæmi heim. Jú, það var víst það sem ég ætlaði að gera. Ég opnaði því töskuna. Tók tölvuna upp og fór með hana inn. Flugferðin var frábær. Ég var ekki að skrifa. Ég las, horfði á kvikmynd og hugsaði.  Ég kom endurnærð heim úr þessari ferð. Það voru ekki komin fleiri orð í skjalið mitt góða en þetta var hárrétt ákvörðun. Það er afar mikilvægt fyrir okkur að huga að því að stoppa, hætta vinnunni okkar og hlaða. Sama hversu skemmtileg eða leiðinleg okkur finnst vinnan okkar vera. Rannsókn sem var gerð á vegum blaðamannsins Dan Buettner og National Geographic hefur sýnt að það eru níu atriði sem einkenna hópa fólks sem lifir hvað lengst. Í heiminum fyrirfinnast svokölluð blá svæði sem hægt er að lesa um í bókinni The Blue Zones. Þessi bláu svæði eru Sardinía á Ítalíu, Ikaría á Grikklandi, Nicoya Peninsula á Kosta Ríka, Aðventistar í Loma linda í Kaliforníuog Okinawa í Japan. Eitt af því sem einkennir þessa hópa er að þeir taka reglulega hvíld. Við erum ekki að tala um að þeir sofi betur en við hin, eða sofi lengur heldur virða þeir hvíldardaga og/eða siestu. Mér finnst þetta mjög magnað og eitthvað sem ég er virkilega að skoða þessa dagana. Það er gott að horfa á frítíma okkar og/eða fríin okkar sem nokkurs konar hleðslu. Það er mismunandi hvað hleður okkur. Ég elska að lesa, fara í göngutúra og borða góðan mat. Þú upplifir kannski meiri hleðslu í því að fara út að hlaupa, hlusta á tónlist og fara í gufubað. Við erum svo misjöfn. En það er mikilvægt fyrir okkar andlegu og líkamlegu heilsu að við stundum reglulega hvíld með því að stoppa, hvíla, ígrunda og njóta. 

 

Hvernig væri að taka einn góðan hleðsludag í þessari viku. Hvernig væri að njóta umhverfisins, njóta samverunnar við fólkið sem þú umgengst og virkilega njóta þess þegar heita vatnið rennur um líkama þinn þegar þú ferð í sturtu. Ég ætla að taka einn góðan hleðsludag þessa helgi. Ég ætla að slökkva á netinu í símanum mínum eins og ég hef gert reglulega undanfarið. Ég ætla ekki að opna tölvuna. Ég ætla að lesa, njóta samveru með fjölskyldu minni, fara í göngutúr, heimsækja vini og setjast niður án þess að hafa samviskubit. Ég ætla að gefa þvottavélinni frí, ég ætla að gefa eldavélinni frí og ég ætla að vera mannVERA ekki mannGERA! Ertu með? 

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 






Er hægt að hafa aðventuna einfaldari?

Það styttist óðum í aðventuna. Kannski ert þú nú þegar farinn að huga að aðventunni. Jafnvel farin/n að kaupa jólagjafir eða búin að því. Ég á mér þann draum og það markmið að vera búin að kaupa allar jólagjafir í byrjun desember. Mér finnst allt svo miklu einfaldara þegar ég þarf ekki að spá í jólagjafainnkaupum í desember.  Hér áður fyrr átti ég mér líka draum um einfaldari aðventu og fyrir nokkrum árum fékk ég að upplifa aðventuna einfalda í fyrsta sinn. Með hverju árinu sem liðið hefur hef ég upplifað aðventuna ljúfari, einfaldari og betri en árið áður. Það er ekki af því að ég er að “toppa” mig í hvert sinn heldur af því að ég met einfaldleikann og hef ekki þörf fyrir að toppa hlutina.

 

Það er ekki nein ákveðin regla þegar kemur að aðventunni. Aðventan hjá minni fjölskyldu er kannski ekki eins og hjá þinni. Það er í raun ekki eitthvað sérstakt sem þú verður að gera eða átt að gera. 

 

Þú þarft ekki að fara á jólahlaðborð. 

Þú þarft ekki að þrífa húsið hátt og lágt

Þú þarft ekki að kaupa dýrar jólagjafir. 

Þú þarft ekki að gera aðventukrans. 

Þú þarft ekki að setja upp jólatré. 

Þú þarft ekki að fara í Ikea og taka myndir með jólasveininum. 

Þú þarft ekki að senda jólakort. 

Þú þarft ekki að baka margar smákökusortir. 

Þú þarft ekki að horfa á jólamyndir. 

Þú þarft ekki að mæta í skötuveislu. 

 

Kannski hugsaðir þú þegar þú last setningarnar hér fyrir ofan “En ég elska að ________(fylltu í eyðuna)” og veistu hvað! Það er frábært. Ég elska líka svo margt við aðventuna og geri sjálf margt sem er á listanum af því mér finnst það skemmtilegt.  

 

En staðreyndin er sú að aðventan þarf ekki að vera flókin. Hún getur verið einföld og mig langar til að deila með þér hvernig ég hef einfaldað aðventuna á mínu heimili. Ég hef því útbúið stutt, einfalt og hnitmiðað ókeypis námskeið þar sem ég fjalla um nokkur atriði sem hægt er að hafa í huga til að einfalda aðventuna.

 

Þú getur skráð þig hér á námskeiðiði Einfaldari aðventa. Það er ekki seinna vænna en að fara að huga að einfaldari aðventu.

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 

 







 



 

 

 




Ég tiplaði á tánum

Áður en ég hóf vegferð mína í átt að Einfaldara lífi gekk ég harkalega á vegg. Ég er ekki að tala um í orðsins fyllstu merkingu heldur gekk ég á vegg andlega. Ég hafði alla mína tíð verið snillingur í að greina hvernig fólki í kringum mig leið. Ég tiplaði á tánum í kringum fólk sem ég umgekkst og reynt að halda friðinn. Ég vissi alltaf hvernig aðrir í kringum mig höfðu það. Hvað það þurfti á að halda, hvað það vildi og svo mætti lengi telja. Í dag er þetta skilgreint sem meðvirkni. 

 

Í eftirfarandi texta sem er á heimasíðu Lausnarinnar, fjölskyldumiðstöðvar er að finna þessa lýsingu:

Meðvirkni er sjúkleiki sem tærir upp sál okkar. Hann hefur áhrif á allt okkar líf, fjölskyldur okkar, börn, vini, skyldmenni; fyrirtæki okkar og frama; heilsu og andlegan þroska.  Hann er hamlandi og ómeðhöndlaður hefur hann eyðileggjandi áhrif á okkur sjálf og aðra enn frekar. Mörg okkar enda í þeirri aðstöðu að þurfa að leita til annarra eftir hjálp.

 

Ég var komin á þann stað að ég þurfti að leita eftir hjálp. Ég man þennan dag eins og það hafi gerst í gær. Ég vaknaði upp um miðja nótt af vondum draumi.  Hjartað sló ört og ég vissi að það var eitthvað að. Þennan dag vissi ég að ég varð að takast á við meðvirknina í lífi mínu áður en þetta endaði illa. Ég varð að leggja ofurkonu búninginn minn til hliðar og vera bara ég, Gunna Stella. Ég varð að fá hjálp.

 

Í dag horfi ég ekki á þennan dag sem versta dag lífs míns heldur dag sem markaði nýja vegferð. Vegferð mína í átt að andlegu og líkamlegu heilbrigði. Þessi tæp 15 ár hef ég verið á magnaðri vegferð. Ég hef horfst í augu við ótta, lært að fyrirgefa, tekist á við kvíða, fundið gleðina, upplifað meira þakklæti, lært að lifa í núinu og orðið hamingjusamari en nokkru sinni fyrr. 

 

Þetta hefur ekki alltaf verið auðveld vegferð en þetta er vegferð sem hefur gert mig sterkari og hugarakkari. Á þessum 15 árum hef ég fengið að vinna með fjölda fólks sem var á sama stað og ég. Hjarta mitt fagnar og hjarta mitt gleðst í hvert skipti sem þessir einstaklingar hafa lagt grímurnar til hliðar, farið úr ofurhetju búningnum og fundið sjálfan sig. 

 

Á námskeiðinu Ofurmamma? Sem hefst 27. október næstkomandi ætla ég að fjalla um þau verkfæri sem ég hef nýtt mér á vegferð minni í átt að andlegu og líkamlegu heilbrigði. Þetta netnámskeið er átta vikur og samanstendur af kennslum, vinnubók, lokuðu stuðningssamfélagi á Facebook, “live” kennslum o.fl. 

 

Ef þú ert á þeim stað að þú vilt finna sjálfa þig aftur þá hvet ég þig til að vera með! Taktu þennan síðasta hluta ársins í þínar hendur og vertu á betri stað með líf þitt í lok þessa árs en nokkru sinni fyrr. 

 

Ef þú vilt byrja strax. Þá hvet ég þig til þess að hlaða niður þessi ókeypis skjali sem inniheldur sjö einföld skref sem þú getur tekið til þess að í átt að betra líðan andlega og líkamlega. 

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 

 


Er hægt að upplifa gleði og hugarró mitt í stormi og rigningu?

Þegar ég hlusta á það sem er að gerast í kringum mig og horfi á það sem er í gangi í þjóðfélaginu hljómar innra með mér rödd. Einfaldaðu, einfaldaðu, einfaldaðu. Oft gerum við okkur ekki grein fyrir því að við flækjum lífið að óþörfu. Jú, það er mikið að gera. Það þarf mörgu að sinna en mitt í storminum og rigningunni er hægt að finna gleði og hugarró. 

 

Þegar ég hóf göngu mína í átt að einfaldara lífi fyrir nokkrum árum síðan þá var líf mitt eins og líf flestra. Ég hafði nóg að gera, mörgu að sinna og verkefnin hlóðust upp. Ég óskaði þess oft að það væru fleiri klukkustundir í sólahringnum og oftar en ekki kom það niður á svefninum hvað það var mikið að gera. En svo gerðist eitthvað innra með mér. Það var rödd sem fór að hrópa “einfaldaðu”. Ég hugsaði með sjálfri mér, það hlýtur að vera önnur leið. Upp úr því hófst vegferð mín í átt að einfaldara lífi. 

 

Einfaldara líf snýst í raun og veru um það að láta það sem skiptir okkur mestu máli hafa forgang en fjarlægja það úr lífi okkar það sem vinnur gegn því. 

 

Einfaldara líf er betra líf

Ég upplifði svo oft  hér áður fyrr að ég hefði ekki tíma til að sinna því sem hjarta mitt þráði og mér fannst það svo leiðinlegt. Eftir því sem ég las meira um minimaliskan lífsstíl og eftir því sem ég uppgötvaði betur að þetta gæti einfaldað líf mitt þá þráði ég það meira. En til þess að við náum markmiði okkar í því að einfalda lífið þá þurfum við að hafa ástæðu fyrir því. Það er mjög mikilvægur hluti þess að ná árangri. 

 

Ég hef sett á blað nokkrar ástæður fyrir því að ég vildi hafa lífið einfaldara. 

 

Ástæður

Ég þráði að hafa meiri tíma fyrir börnin mín. 

Ég þráði að hafa meiri tíma til að sinna fólki. 

Ég þráði að geta skipt um vinnu og hjálpað einstaklingum að upplifa heilbrigðara líf

Ég þráði að geta menntað mig meira

Ég þráði að geta borgað niður skuldir. 

Ég þráði að hafa meiri fjármuni til að ferðast. 

 

Einfaldara líf fyrir mig er það geta sinnt því sem hjarta mitt brennur fyrir. Einfaldara líf er það að geta sest niður og drukkið kaffibollann minn án þess að hafa áhyggjur af því sem ég þarf að gera næst. Einfaldara líf er það að njóta dagsins og vera glöð og ánægð í því starfi sem ég sinni. Einfaldara líf er það þegar ég get  notið þess að sinna fjölskyldu minni og börnum án þess að bíða bara eftir að dagurinn líði og allir fari að sofa. Þannig eru ekki allir dagar en þeim fjölgar stöðugt og ég er ótrúlega þakklát fyrir það.  

 

Ég þrái að fleiri upplifi lífið einfalt þó svo það sé nóg að gera. Eins og einn góður vinur minn sagði!  "Lífið getur verið einfalt þó svo það sé mikið að gera"  Það er einmitt það sem ég vil að þú upplifir. Mitt í storminum og regninu getur þú upplifað sátt og gleði. 

 

Með þetta í huga  ákvað ég að gefa 62% afslátt af rafræna námskeiðinu mínu Einfaldara líf - Betra líf helgina 13-15. september! Satt að segja er það eins og verð á einni pizzu! 

 

Einfaldara líf - Betra líf

- 3.740 kr - 

 

Einfaldara líf - Betra líf er námskeið sem ég samdi eftir að hafa hafið vegferð mína í átt að Einfaldara lífi. Þetta námskeið er rafrænt sem þýðir það að þú getur hlustað á kennslurnar heima og unnið verkefnið algjörlega þegar þér hentar.

 

Með von um EINFALDA helgi laughing

 

Kærleikskveðja, 

Gunna Stella 






Botnlangakastið leiddi til Tenerife ferðar

Í byrjun október í fyrra fékk maðurinn minn heiftarlega mikinn magaverk. Hann var sárkvalinn,lá á bráðamóttökunni heila nótt en var svo sendur í aðgerð þegar líða tók á næsta dag. 

 

Þegar hann var komin inn á aðgerðarstofuna áttaði ég mig á því að ég var óróleg inn í mér. Þegar ég er óróleg og hrædd þá fer ég oft að gera eitthvað verklegt, framkvæma, laga til eða eitthvað sem krefst þess að ég geti sett fókusinn minn annað. En þarna var það ekki hægt. Ekki gat ég farið að taka til á sjúkrahúsinu.

 

Í nokkrar vikur fyrir þetta var mig búið að dreyma um að skipuleggja ferð fyrir konur til Tenerife þar sem ég myndi blanda saman uppbyggjandi kennslu, sjálfrækt, hollum mat og hreyfingu. Ég hafði samt ákveðna hugmynd um húsnæði sem ég vildi vera með hópinn í og var á þessum tímapunkti ekki enn búin að finna rétta húsið. Ég var sem betur fer með tölvuna mína og fór að skoða hús á Tenerife og gat þannig dreift huganum. Maðurinn minn hafði hvatt mig lengi til að láta þetta verða að veruleika og á meðan hann var í aðgerðinni fann ég draumahúsið. Húsið sem ég var búin að leita lengi að. Það sem seldi mér hugmyndina að því að þetta væri rétta húsið var ekki fallega útsýnið, fallega sundlaugin, fallegu herbergin heldur sófinn sem var í stofunni. Þarna sá ég fyrir mér að ég gæti verið með hóp kvenna, sem myndu tengjast, tala saman og opna hjarta sitt og vinna að því að verða besta útgáfan af sjálfri sér. Ég pantaði því húsið og þegar maðurinn kom úr aðgerðinni var ég búin að skipuleggja heila Tenerife ferð. Hann var  mjög ánægður fyrir mína hönd en auðvitað líka að vera laus við botnlangann og verkinn sem honum fylgdi.

 

Í þessari ferð sá ég draum minn rætast. Stundum er sagt að konur séu konum verstar og það er mikið til í því en á þessum stað og í þessum hópi voru konur, konum bestar. Þær hvöttu hvor aðra áfram og stóðu með hvor annarri.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa tekið fyrsta skrefið í átt að því að láta þennan draum minn rætast. Með falli WOW air í vor vissi ég ekki hvort ég gæti látið verða af því að skipuleggja aðra ferð. En hjarta mitt sagði jú, það eru konur þarna úti sem þurfa að komast í svona ferð. Heilsa - Hreyfing - Hugarró 2020 verður á Tenerife 25. febrúar - 3. mars. Allar nánari upplýsingar má finna hér!  

 

Það er svo mikilvægt að horfa fram á við og hafa sýn fyrir lífið. Í bókinni Chazown sem ég las fyrir nokkrum árum segir “allir hafa tilhneigingu til að enda einhversstaðar en það eru fáir sem enda einhversstaðar viljandi”. Ég er svo sammála þessari fullyrðingu og ég tók þennan boðskap til mín þegar ég heyrði hann fyrst.

Ef ég á mér draum þá er svo mikilvægt að ég taki skref í átt að því að láta hann rætast. Eitt af þeim verkefnum sem ég legg reglulega fyrir markþega mína og konur sem hafa sótt námskeið hjá mér er að skrifa niður drauma sína. Sumir draumar eru einfaldir og aðrir eru stórir. Ef við vitum ekki hverjir draumar okkar eru þá er ólíklegt að þeir rætist. Við þurfum ekki að lenda í stórkostlegu áfalli, vera komin á eftirlaunaaldur eða fá lífshættulegan sjúkdóm til þess að gera okkur grein fyrir því hverjir draumar okkar eru. Við getum látið okkur dreyma strax í dag

 

Ég mæli með því að skrifa niður hverjir draumar ykkar eru. Þú getur t.d skrifað það í dagbók, á rafrænt skjal eða í forrit í snjallsímanum þínum. Mundu bara að hafa skjalið einhversstaðar þar sem þú sérð það reglulega.  

 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella 





Játningar móður og mammviskubitið

Ég er svo heppin að vera mamma, hlutverk sem ég þráði að sinna allt frá frá því að ég var lítil stelpa í mömmó.  Ég elska börnin mín og vil þeim allt það besta í lífinu. Þegar ég varð móðir í fyrsta sinn þá byrjaði ég hlutverkið með ákveðinn misskilning í farteskinu. Ég hélt ég þyrfti að vera fullkomin mamma. Ég vildi standa mig vel, ég vildi vernda barnið mitt. En þegar á leið þá uppgötvaði ég að það er ekkert sem heitir "fullkomin mamma". Ég reyni mitt besta en stundum tekst mér ekki nógu vel til. Ég reyni að passa upp á börnin mín séu snyrtileg, fái nærandi mat, sinni heimanámi, fái tækifæri til að stunda tómstundir, sinna áhugamálum sínum og vináttu við önnur börn o.s.frv. Það koma dagar þar sem ég uppgötva (þegar börnin eru sofnuð) að ég gleymdi að láta þau lesa eða að senda þau á fimleikaæfingu og þess háttar. Sem betur fer hef ég lært að það er allt í lagi að gera ekki allt 100% rétt. 

 

Ég þarf oft að segja nei við börnin mín, það er stundum erfitt en ég veit að það er þeim fyrir bestu. Ég þarf líka stundum að kenna börnunum mínum þolinmæði, t.d með því að kenna þeim að safna fyrir hlutum sem þeim langar til að eignast eða hreinlega bíða eftir að röðin komi að þeim.

 

Screenshot 2019-06-07 at 11.04.05

 

Í vikunni fjallaði ég um það á Instagram að Móðurhlutverkið er margslungið og hef ég oft upplifað svokallað Mammviskubit. Ég hef sannfært sjálfa sig um að ég séu ekki nógu góð og fer að bera mig saman við mömmuna í næsta húsi eða mömmuna sem ég er nýfarin að fylgja á Instagram. Við mömmur erum ólíkar, höfum mismunandi hæfileika og nálgumst lífið frá mismunandi sjónarhorni. Við þurfum ekki að vera fullkomnar og við megum viðurkenna það þegar okkur tekst ekki nógu vel til.

 

Hluti af mínu ferli í átt að einfaldara lífi hefur verið að taka aðstæðum eins og þær eru. Stundum er lífið auðvelt og stundum er það bara flókið. Eitt af því er að horfast í augu við það að ég er ekki fullkomin mamma en ég er góð mamma sem umvef börnin mín kærleika og ást og reyni ekki að setja þau öll í sama mót. Þau eru jafn misjöfn eins og þau eru mörg en öll hafa þau að geyma frábæran persónuleika sem þarf að fá bestu skilyrði til að vaxa. Bestu skilyrðin fyrir þau eru ást, kærleikur, þolinmæði, umhyggjusemi, rétt magn af aga og dass af ófullkomleika. Já, það er stundum gott fyrir þau að sjá að mamma er ekki fullkomin.


Kærleikskveðja laughing

 

Gunna Stella 

 

 

 

 


Ég öskraði úr mér lungun...

Undanfarna daga hefur myndast mikill spenningur í bænum sem ég bý í. Fólk hefur klætt sig í vínrauð föt, hengt upp fána, keyrt um með fána og verið tilbúin í slaginn. Þú ert eflaust farin að átta þig á hvað ég er að tala um. Já, baráttan um Íslandsmeistaratitilinn í Handbolta. Selfoss átti von á Haukum í heimsókn. Heimaleikur í Hleðsluhöllinni. Þvílík spenna. Þvílík stemning í bænum. Leikurinn var magnaður. Liðið stóð sig frábærlega og áhorfendur einnig. Ég horfði á leikinn í háskerpu ein heima með drengina. Spennan var mikil og ég öskraði úr mér lungun. Við stóðum saman og héldum með Selfossi. Fyrir utan einn á heimilinu. Yngsti sonurinn hafði bitið það í sig að hann ætlaði að halda með Haukum þar sem þeir væru svo góðir í handbolta. Já, það er mikið rétt hjá honum en rótin að þessum skyndilega áhuga drengsins á því að halda með Haukum var sú að síðasta leikur sem hann hafði séð var þegar Haukar unnu Selfoss. Það var því nokkuð erfitt að sýna samstöðu á heimilinu. Ég öskraði af gleði við hvert mark og hann hélt fyrir eyrun og vildi ekki horfa lengur á þennan handbolta. Ég greip því á það ráð að kveikja á Hvolpasveit í tölvunni fyrir hann. Hann var mjög ánægður með það og kallaði svo úr herberginu síðar og tilkynnti okkur að hann væri hættur að halda með Haukum (Selfoss var jú að vinna).

 

Það er eitthvað sérstakt sem gerist þegar við stöndum saman. Það er auðvelt að finna það í heilu bæjarfélagi. Þegar þú heyrir bæjarbúa fagna Íslandsmeistaratitlinum langt fram á nótt með bílaflauti og flugeldum. Næsta árið verðum við svo öll sérstaklega stolt af því að vera Selfyssingar. Svo stolt að líklega hengja mörg heimili upp mynd af handboltaliðinu.

 

En er hægt að ná svona samstöðu í víðara samhengi. Er hægt að sýna meiri náungakærleika? Ég held að lífið verði einfaldara þegar við stöndum saman. Lífið verður einfaldara þegar við veljum það að huga að náunganum. Þegar við hættum að láta allt snúast um okkur sjálf. Þegar við veljum að gera góðverk. Gefa, hjálpa og nota þá hæfileika sem okkur hefur verið gefið öðrum til blessunar. Það var magnað að hlusta á lýsingar drengjanna í handboltaliðinu sem sögðu frá öllum sjálfboðaliðunum sem höfðu unnið óeigingjarnt starf. Það er frábært. En við þurfum ekki endilega að vera tengd íþróttafélagi til að geta unnið óeigingjarnt starf. Við getum gefið bros, gefið falleg orð, gefið góðverk, gefið af fjármunum okkar, gefið af tíma okkar. Ég held að lífið breytist á magnaðan hátt þegar það hættir að snúast um okkur sjálf og fer að snúast um að gefa ...

 

Sælla er að gefa en þiggja er það ekki? Ég er allavega á þeirri skoðun. Hamingjan er fólgin í því að huga að öðrum. Í ljósi þessa ætla ég að bjóða þér að taka þátt í ókeypis hamingjuáskorun, sem hefst 10. júní næstkomandi. Áskorunin stendur í 10 daga og mun ég koma með áskorun í formi myndbands dag hvern. Það eina sem þú þarft að gera er að líka við síðuna Einfaldara líf og þú munt fá tilkynningu þegar áskorunin hefst.

 

Hafðu það sem allra best,

 

Gunna Stella





 





 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband