Er hægt að einfalda lífið?

Fyrir nokkrum árum fóru við hjónin með börnin okkar fjögur í ferðalag til Flórída. Yngsta barnið okkar var nokkra mánaða og ég var frekar stressuð yfir því að fara í langt ferðalag með svona mörg börn. Mér finnst reyndar hlægilegt til þess að hugsa í dag í ljósi þess að við erum nýkomin frá Ástralíu með alla fjölskylduna. En maður slípast til með árunum og lífið verður einfaldara í huganum. Á þessu ferðalagi okkar til Flórída höfðum við húsaskipti og dvöldum í dásamlegu húsi í fallegu hverfi rétt fyrir utan Orlando. Á meðan við dvöldum þar tók ég eftir því hversu auðvelt var að halda húsinu hreinu og  að laga til. Lítið var um skrautmuni í húsinu og enginn óþarfi. Húsið var samt sem áður mjög fallegt og innréttað á fallegan hátt. Börnin voru með passlegt magn af leikföngum og allir með nokkur sett af fötum.

 

Þetta var afskaplega ljúft og þægilegt frí.  Á þessum tíma var ég nýlega byrjuð á vegferð minni í átt að einfaldara lífi og var því meira vakandi en ella yfir því hvernig mér leið, hvernig húsið var og hvað hafði áhrif á líðan okkar.  Þegar heim var komið hugsaði ég oft um húsið í í Flórída og mig langaði til þess að heimilið okkar yrði eins og það heimili þ.e einfaldara! Ég byrjaði því markvisst að einfalda heimilið, lífið og dagskrána meira og meira.

 

Flórída, febrúar 2016 

 

En er ekki flókið að byrja að einfalda? Nei, alls ekki.

 

10:7

Gefðu þér 10 mínútur á dag í eina viku til að fara um heimilið þitt, horfa á hlutina í kringum þig og spyrja sjálfa þig eftirfarandi spurningar: Þarf ég á þessu að halda? Ef svarið er nei, settu það þá í kassa og farðu með það á næsta Nytjamarkað.

Þetta einfalda atriði mun hjálpa þér að byrja og koma þér vel af stað. Þ Þú munt finna mun þegar þú losar þig við hlutina í stað þess að endurraða þeim.

Ég þrái að hafa heimilið mitt einfalt vegna þess að það gefur mér meiri tíma með börnunum mínum, gefur mér meira svigrúm til þess að sinna áhugamálum mínum og það gefur mér meiri ró.

Það eru til ýmsar góðar aðferðir til þess að einfalda heimilið og það er ferli Þess vegna ákvað ég að deila af reynslu minna og einfalda málið fyrir aðra sem vilja hefja þessa vegferð. Þess vegna samdi ég námskeiðið Einfaldara líf - Betra líf.

 

Þetta námskeið leiðir þig skref fyrir skref í átt að einfaldara lífi. Einn af kostunum við þetta námskeið er að þú getur hafist handa strax í dag, hlustað á þínum hraða og unnið verkefnin eftir þinni hentisemi.

 

En þú nærð ekki árangri nema að þú byrjir. Þess vegna hvet þig til þess að taka skrefið í dag í átt að einfaldara lífi. 

 

Smelltu hér til þess að hefjast handa! 

 

 

Þangað til næst ....

Gunna Stella



 
 

 


Er BRJÁLAÐ að gera?

Ég sá auglýsingu frá Virk starfsendurhæfingarsjóði um daginn þar sem skotið er hressilega á okkur íslendinga og þessa frægu setningu. Brjálað að gera! Virk fór af stað með verkefni með yfirskriftinni “Brjálað að gera” til þess að vekja athygli á því hvað fólk er oft undir miklu álagi í einkalífinu og á vinnustaðnum.

 

Í gegnum tíðina hefur það þótt vera “flott” að segjast hafa brjálað að gera.

 

 

Af hverju þarf að vera brjálað að gera til þess að við upplifum okkur einhvers virði?

 

 

Allt of margir einstaklingar hafa lent í kulnun, einfaldlega af því að það er brjálað að gera. Ætlast er til að fólk hafi tíma til að sinna vinnu, fjölskyldu, áhugamálum, líkamsræktinni og öðru sem kemur óvænt upp á án þess að kikna. En hjá flestum okkar gengur það ekki til lengri tíma. Á einhverjum tímapunkti gefur eitthvað sig og oftar en ekki er það líkaminn, andleg heilsa eða bæði.

 

Í starfi mínu legg ég mikla áherslu á að hjálpa einstaklingum að finna jafnvægi í lífi sínu. Það er ekki nóg að borða næringarríkan og hollan mat og mæta í ræktina nokkrum sinnum í viku til þess að upplifa jafnvægi. Til þess að ná jafnvægi þá er mikilvægt að þú hafir einnig tilgang, að þú eigir uppbyggjandi og góð sambönd í lífi þínu, að þú sinnir andlegri heilsu og þú sinnir áhugamálum sem þú elskar.

 

Hvernig væri að við tækjum höndum saman og hættum að gera setningunni “það er svo brjálað að gera” hátt undir höfði. Hvernig væri að við myndum einfalda lífið. Hvernig væri að við myndum gefa okkur tíma daglega til þess að gera eitthvað sem nærir okkur andlega og líkamlega. Hvernig væri að við myndum rækta sambönd sem hafa jákvæð áhrif á okkur. Hvernig væri að við einfölduðum dagskrána og lærðum að segja NEI!

 

Einfaldara líf fyrir mig lítur kannski ekki út eins og einfaldara líf fyrir þig. Einfaldara líf fyrir mig er það geta sinnt því sem hjarta mitt brennur fyrir. Einfaldara líf er það að geta sest niður og lesið bók og haft hugann við bókina. Einfaldara líf er það að njóta dagsins og vera glöð og ánægð í því starfi sem ég sinni. Einfaldara líf er það þegar að geta notið þess að sinna fjölskyldu minni og börnum án þess að bíða bara eftir að dagurinn líði og allir fari að sofa.

 

Hvernig er einfaldara líf fyrir þig?




Njóttu dagsins! 

 

Gunna Stella

Heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari

 


Fimm skref í átt að Einfaldari þvottarútínu!

Stundum líður mér eins og þvotturinn vaxi í þvottakörfunni.Ég hef oft pirrað mig á þvottinum sem fylgir stóru heimili. Reyndar var ég pirruð yfir þvottinum áður en við eignuðumst svona mörg börn. Mér fannst þvotturinn vera endalaus (sama hvað við vorum mörg). Fyrir ári síðan lærði ég nýja aðferð sem hefur gert það að verkum að mér finnst ég ekki lengur vera að drukkna í þvotti.

 

Við búum í tveggja hæða húsi og eru herbergin á efri hæðinni og þvottahúsið á þeirri neðri. Ég er með þvottakörfu á efri hæðinni fyrir óhreinan þvott og nú hafa allir lært að setja sinn óhreina þvott þangað, nema unglingarnir á heimilinu sem eru með sína eigin þvottakörfu og sjá sjálfir um að þvo sinn þvott.  Körfuna fer ég með niður að morgni dags og skelli þvottinum í þvottavélina. Yfirleitt er þvotturinn þannig að þá má blanda honum saman nema það sé eitthvað alveg sérstakt. Ég þvæ hinsvegar föt sér og handklæði og tuskur sér. Fötin set ég í þvottavélina á prógramm sem tekur 45 mínútur þannig að á meðan börnin borða morgunmat sér vinnukonan (þvottavélin) um að þvo þvottinn og þegar hún er búin hengi ég þvottinn upp. Þvotturinn þornar svo yfir daginn og tek ég hann niður að kvöldi (eða þegar hann er þurr) og brýt hann saman. Stundum er það hluti af verkefnalista barnanna að brjóta þvottinn saman. Sá næstyngsti sem er 6 ára hefur sérstaklega gott lag á því að brjóta saman þvott sem er afar skemmtilegt að sjá. Mér finnst mjög gott að flokka þvottinn í bunka sem tilheyrir hverjum og einum fjölskyldumeðlim þannig að hver og einn geti gengið frá sínum fötum að morgni næsta dags.

Tuskur og handklæði og set ég í þvottavélina (ef þarf) þegar ég er búin að taka fötin úr henni og set það svo í þurrkarann þegar það er búið (ef ég er heima) annars má það alveg bíða þangað til ég kem heim.

Þegar við höfum farið í ferðalög eða ég hef þurft að fara í burtu í einhvern tíma þá auðvitað fer rútínan úr lagi en ég er fljót að vinna hana upp aftur. Þetta hefur gert það að verkum að þvottakarfan er oftast tóm í þvottahúsinu og mömmunni líður betur.   

 

Fimm skref í átt að Einfaldari þvottarútínu:

  1. Allir fjölskyldumeðlimir setja óhrein föt í körfu
  2. Óhreinn þvottur settur í þvottavélina að morgni
  3. Hengt upp úr vélinni áður en farið er að heiman að morgni dags
  4. Brotið saman og sett í bunka fyrir hvern fjölskyldumeðalim að kvöldi
  5. Allir ganga frá sínum bunka að morgni næsta dags

 

Vekjaraklukkuaðferðin

Til að koma upp nýrri rútínu finnst mér gott að nota vekjaraklukkuaðferðina. Þegar ég var að koma mér upp þessari nýju þvottarútínu þá stillti ég klukkuna kl. 07:00 og lét vekjaraklukkuna heita "Þvottur". Síminn minnti mig því á þvottinn daglega í langan tíma þangað til þetta varð að vana. Þessa aðferð nota ég fyrir mjög margt og í hvert sinn sem ég er að tileinka mér nýjan vana.

 

Gangi þér vel að þvo,

Gunna Stella


Á sundi með plaströrum, plastumbúðum og gullfiskum

Ég hef oft heyrt að plast sé slæmt fyrir jörðina og hef markvisst reynt að minnka plastnotkun. Ég er þó langt frá því að vera búin að fullkomna það enda vön að nota plast í allskonar stærðum og gerðum árum saman. Ég áttaði mig í raun ekki á því hversu slæmt plast er fyrir umhverfið okkar fyrr en ég fór að synda í sjónum á Balí. Í kringum mig flutu plastpokar og plastumbúðir og út um allt voru plaströr. Ástæðan er ekki sú að ruslið sem skilur sér á strendurnar hér sé ekki þrifið heldur hafa Balíbúar ekki undan. Hér á Balí vinna menn hörðum höndum við að þrífa upp allt ruslið sem skilar sér á strendurnar hér en ruslið virðist vera endalaust, því miður.

 

Þegar við fjölskyldan fórum að snorkla varaði leiðsögumaðurinn okkur við því að við myndum mjög líklega sjá fljótandi plast á ýmsum stöðum. Það reyndist mikið rétt. Samt fer hann mörgum sinnum í viku að snorkla og tekur yfirleitt vel til og týnir plastið úr sjónum. Það var ótrúlega magnað að sjá alla fiskana og alla fegurðina í því sem býr neðansjávar. En plastið átti svo sannarlega ekki heima þar og passaði ekki inn í umhverfið. Plast er svartur blettur á umhverfinu. Plast er víða þar sem því var aldrei ætlað að koma og plast er í mikið af þeim vörum sem við notum dags daglega og skilar það sér ekki allt í endurvinnslu. Ég fagna minnkandi plastnotkun á Íslandi. Eftir þessa upplifun er ég að nálgast þá skoðun það eigi að banna einnota plast og banna plaströr.

 

Ég hef sjálf tekið nokkur skref í átt að minni plastnotkun en þarf að gera mun betur þegar heim er komið. Upplifun mín á Balí mun verða góður drifkraftur til þess.

 

Kær kveðja,

Gunna Stella

 




Menningarsjokk á Balí!

Fyrir tveimur dögum síðan lentum við fjölskyldan á Balí. Ég er búin að hlakka til að koma til Balí lengi en vissi ekki við hverju átti að búast. Fyrsta upplifun mín af Balí var mjög góð. Flugvöllurinn var snyrtilegur og fólkið var vingjarnlegt. Þegar við gengum út af flugvellinum fann ég sömu lykt og á Indlandi og í Afríku. Blanda af hita, raka og mengun.  Börnin urðu mjög hissa þegar þau settust upp í beltislausan bíl og urðu enn meira hissa þegar þau sáu fólk keyra um á mótorhjólum með börn og það hjálmlaus. Þeim fannst þetta þó mjög áhugavert og spennandi.

 

Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir var áliðið og við ákváðum að leita að veitingastað til þess að fá okkur kvöldmat. Við gengum eftir götunni og þurfum að fara mjög varlega í myrkrinu. Við gengum í vegkantinum. Mótorhjól á ógnarhraða allt í kring. Ég, Aron og dóttir okkar Lýdía skiptum strákunum á milli okkar og gengum í einni línu í vegkantinum. Ég veit ekki hversu oft ég kallaði.

 

 

Passið ykkur!

Mótorhjól!

Farið innar!

 

Þessi stutta ferð að veitingahúsinu gerði það að verkum að ég hugsaði. Hvert er ég komin? Hvað erum við að spá? Eigum við fótum okkar fjör að launa í hvert skipti sem við stígum fæti úr húsi hér á Balí? Neikvæðar hugsanir voru eins og ský í huga mér sem ætluðu að skyggja á sólina. Í ofanálag var okkur mjög heitt og við vorum sveitt og þreytt. Við höfðum lítið borðað þennan dag þar sem við vorum búin að ferðast lengi frá Sydney. Ég áttaði mig á að þetta var sama tilfinning og ég hafði upplifað fyrsta daginn minn í Ougadougou í Burkina Faso og fyrsta daginn minn í Mumbai á Indlandi. Þetta var menningarsjokk á lágu stigi. Ég ákvað að anda rólega. Hertaka hugsanir mínar og sagði við sjálfa mig. Gunna Stella, þú veist að þetta verður betra á morgun. Núna ertu þreytt, svöng og þér er heitt. Þetta verður æðislegt!

Viti menn, ég vaknaði úthvíld. Umhverfið var fallegt og það kom í ljós að gatan sem við höfðum gengið var ein mesta umferðargatan í hverfinu. Á degi tvö kom í ljós að Balí er Paradísareyja. Það er svo yndislegt og ljúft að vera hér. 

 

Menningarsjokk er tilfinning er sem ekki óeðlileg þegar komið er i menningu sem ólík því sem maður á að venjast.  Menningarsjokk geta verið mis mikil en það er hluti af ferðalögum og í raun stæða þess að við ferðumst. Ég er allavega oft að sækjast eftir einhverju sem ég finn ekki heima á Íslandi. Einhverju nýju og einhverju spennandi. Það góða við menningarsjokk er að í flestum tilfellum kemst maður yfir það á nokkrum dögum.

 

Þú getur fylst með ferðalaginu okkar á Instagram!

 

Sólarkveðja, 

 

Gunna Stella 

 

 

 

 

 

 


Ævintýri enn gerast

Það er svo auðvelt að vera búin að undirbúa ferðalagið sem maður er á svo vel að maður fer algjörlega eftir GPS tækinu, gleymir að njóta augnabliksins og vera opin fyrir nýjum ævintýrum. Nú erum við  fjölskyldan (6 manns) á mánaðar ferðlagi. Þessa dagana erum við stödd í Ástralíu. Við erum búin að gera ótrúlega margt skemmtilegt., Þar á meðal að fara í brúðkaup vina okkar, gefa kengúrum að borða og klappa kóalabirni. Þessa dagana erum við að keyra niður The Great Ocean road í átt að Melbourne. Þessi leið er ótrúlega fallega. Þegar við komum til landsins vorum við búin að sjá fyrir okkur að gista á ákveðnum stöðum en ákváðum svo með stuttum fyrirvara að fara fyrr frá Adelaide og vera  lengur á leiðinni niður The Great Ocean Road en við áætluðum í upphafi. Við höfum því pantað gistingar síðustu þrjár nætur annaðhvort samdægurs eða kvöldið áður. Það kom skemmtilega á óvart að gistingin á þessari leið er ódýrari eftir því sem þú pantar hana með styttri fyrirvara. Við erum því búin að fá mun hagstæðari gistingar með þessari aðferð. Á þessari vegferð okkar erum við búin að lenda í rigningu, brjáluðu roki, sól og logni. “Feels like home”.

 

beautiful-blue-sky-body-of-water-1170572Í gær keyrðum við síðasta hluta leiðarinnar án þess að hafa GPS tæki. Við ákváðum bara að fylgja strandleið og stoppa þar sem okkur langaði að stoppa. Þvílík ævintýri, skilti sem vöruðu við snákum. Villtar kengúrur að bíta gras með hestum. Stígur sem leiddi okkur að fallegum klettum og niður að strönd sem var svo skemmtileg og falleg að drengirnir vildu ekki hætta að leika sér. Ég elska að ferðast svona. Vera opin fyrir ævintýrum og óvæntum uppákomum. Dagurinn endaði svo á frábæru hóteli þar sem við fórum í Tennis, Boccia og sund. Þetta hótel bókuðum við með nokkurra klukkutíma fyrirvara. Það er greinilega gott að ferðast með stóra fjölskyldu niður The Great Ocean Road þegar farið er að hausta í Ástralíu. Verðið á gistingu er allavega mun lægra en þegar við byrjuðum að skoða það fyrir nokkrum mánuðum. Það er nauðsynlegt að vera skipulagður, vera búin að undirbúa ýmislegt en það þarf ekki að vera búið að skrifa niður allt sem á að skoða. Það er gott að vera opin og leyfa ævintýrunum að gerast.  

 

... þú getur fylgst með ferðalaginu okkar hér!  

 

Sólarkveðja, 

 

Gunna Stella 

 


Ekki gera þessi mistök þegar þú ferðast með börn!

Það er ótrúlega gaman að ferðast. Við hjónin elskum að ferðast með börnin okkar. Nú erum við komin til Ástralíu sem þýðir að dóttir okkar hefur komið til 6 heimsálfa og synir okkar til 5. Við lítum á ferðalög sem góða fjárfestingu. Góðan tíma sem fer í minningabankann. En þó svo við höfum mjög gaman af því að ferðast með fjölskylduna þá í sannleika sagt er það ekki alltaf dans á rósum. Það eru kostir og gallar að vera stór fjölskylda á ferðalagi en ég myndi alltaf meta kostina fleiri en gallana.

 

Í fyrradag áttum við heilan dag í Singapore þar sem við millilentum á leið okkar til Ástralíu. Tímamismunurinn var mikill og við sváfum misvel nóttina áður en við skoðuðum Singapore. Við gerðum mistök sem ég geri ekki oft.  Við gleymdum að taka með okkur nesti. Það varð eftir í farangrinum okkar sem hótelið geymdi fyrir okkur þangað til við þurftum að fara á flugvöllinn. Það leið því nokkur tími áður en við gátum gefið fjölskyldunni morgunmat. Börnin eru flest öll eins og mamma sín. Gleðistuðullinn minnkar eftir því sem hún verður svangari. Þegar leið á morguninn höfðum við gengið um og ferðast í "hopp on, hopp off" strætó (mjög skemmtilegt) og séð margt áhugavert. Börnin fóru eitt af öðru að tala um svengd og áður en gleðistuðullinn minnkaði mikið drifum við okkur á næsta loftkælda kaffihús og fengum Croissant. Það var magnað að sjá hvað allir urðu glaðari eftir smá kælingu og mat. Við héldum svo áfram að skoða þessa ótrúlegu borg. Áður en langt um leið var þó farið að tala um svengd á ný. Við fórum því og fengum okkur frábæran mat í indverska hverfinu í Singapore. Ég er svo hrifin af indverskum mat. Hann er uppáhalds ásamt reyndar allskonar öðrum mat líka. 

 

architecture-attraction-bay-1842332

Eftir á að hyggja var þó í raun mjög gott að lenda í því að gleyma orkustykkjum og öðru nesti þennan fyrsta dag, við lærðum af því. Ég passa nefnilega yfirleitt vel upp á að vera með ýmislegt til að narta í sem gefur orku á svona ferðalögum. Nú er tæplega mánaðar ferðalag framundan og er markmiðið að passa að vera alltaf með eitthvað til að grípa í ef börnin (og ég) verða svöng, og halda þannig gleðistuðlinum eins háum og hægt er.

 

... muna nestið!

 

Nesti = Glöð börn 

 

Þu getur fylst með ferðalaginu okkar hér!  

 

Kveðja frá "Down under". 

 

Gunna Stella 

 


Minni farangur en mörg börn

Við fjölskyldan höfum ferðast mjög mikið í gegnum árin og oftar en ekki með allt of mikinn farangur. Síðastliðin ár höfum við hinsvegar gert tilraunir til þess að ferðast á einfaldari hátt.

 

Mér finnst mun einfaldara að ferðast með lítinn farangur þegar ég er ein á ferð en þegar kemur að því að ferðast með fjögur börn þá er það aðeins meira mál. Ég hef oft sagt við manninn minn að mér finnist mun einfaldara að ferðast til heitra landa með börnin en í sumarbústað á Íslandi. Ástæðan er sú  að þegar ferðast er á Íslandi þá þarf að taka með sér allar gerðir af útifötum og þá fyllist taskan fljótt. En þegar ferðast er til heitra landa þar bæði minna af fatnaði og fatnað sem tekur minna pláss.

 

Nú er komið að því að við fjölskyldan erum að leggja í langferð hinum megin á hnöttinn. Við tókum þá ákvörðun þegar við pöntuðum flugmiðana að við myndum ferðast með lítinn farangur. Við höfum yfirleitt ferðast með barnabílstóla með okkur en þar sem það er bæði ódýrt og einfalt að leigja barnabílstóla í Ástralíu þá tókum við þá ákvörðun að skilja okkar eftir heima. Bara það eitt og sér sparar mikið pláss. Við ákváðum líka að skilja barnakerru eftir heima þar sem við höfum komist vel upp með það að vera án hennar í rúmt ár. Þegar við fórum til vestur Afríku í fyrra þá skildum við barnakerruna eftir heima og höguðum okkur "næstum" því eins og heimamenn og notuðum Ergo burðarpokann okkar sem getur borið rúmlega 20kg barn. Hann er einn af mínum uppáhalds og hefur þjónað okkur vel í mörg ár. Hann fær því að koma með okkur í þessa langferð. Ég hef líka heyrt að það sé ekki þægilegt að vera með barnakerru á Bali svo við ætlum að láta reyna á þetta.

 

Okkur langar ekki að ferðast með mikinn farangur og höfum því sett okkur þau skilyrði að hver og einn fær að ferðast með einn bakpoka sem passar á bakið á viðkomandi . Það þýðir ekki að við þurfum að fylla töskurnar en það þýðir að við höfum sett okkur ákveðin mörk. Við hjónin og dóttir okkar sem er 15 ára ætlum að vera með svokallaða heimsreisubakpoka sem eru frábærir í svona ferðalög. Drengirnir þrír verða allir með minni bakpoka í mismunandi litum fyrir hvern og einn þeirra.

Við erum að pakka ofan í töskurnar þessa dagana. Ég er búin að að skrifa niður í skjal hvað við ætlum að taka með.

 

Eftirfarandi hlutir eru meðal annars komnir á listann.

 

  • Stuttbuxur
  • Skyrtur
  • Sundföt
  • Kútur
  • Bolir
  • Pilates ferðadýnu
  • Snyrtivörur
  • Sólavörn
  • Aloe vera
  • Vítamín
  • Sandala
  • Kindle
  • Tölvu
  • Vegabréf
  • Bólusetningarskírteini
  • Ferðagögn
  • Stílabók
  • Skólabækur
  • Afþreyingarefni

 

Það er svo mikið frelsi að ferðast með minni farangur. Ferðalagið verður einfaldara og þægilegra. Minni biðtími á flugvöllum, minni tími í að pakka niður þegar ferðast er á milli staða og allt þægilegra.

 

Ég hlakka mikið til þegar við erum búin að pakka niður og getum hafið ferðina. Ferðalagið verður langt en markmið okkar er að njóta augnabliksins. Njóta ferðalagsins og njóta vegferðarinnar.

 

Þú getur fylgst með því hvað við setjum í töskurnar okkar og hvernig ferðalagið verður með því að fylgjast með Instagram og á Facebook.

 

Njótum augnabliksins,

Kærleikskveðja,

Gunna Stella


Að ferðast meira fyrir minna!

Eitt af mínum aðal áhugamálum er að ferðast. Ég elska að fara til nýrra landa og kynna mér staðhætti, njóta mannlífsins og veðurfarsins.

 

Við hjónin höfum ferðast mikið með börnin okkar og hafa þau komið til margra landa. Það er sannarlega ekki “ókeypis” að ferðast með stóra fjölskyldu en það er hægt ef vel er haldið á spöðunum. Okkur finnst best að ferðast á eigin vegum og bóka flug, hótel og þess háttar sjálf. Oftar en ekki þarf ég að verja talsverðum tíma í leit að hagstæðum flugmiðum, hótelum og bílaleigubíl en það hefst yfirleitt alltaf að lokum.

 

adventure-atlas-business-1051075

Nú síðar í mánuðinum erum við fjölskyldan á leið til Ástralíu í brúðkaup vinar okkar. Þar sem við erum að fara að ferðast hinum megin á hnöttinn ákváðum við að gera aðeins meira úr ferðinni. Við veltum ýmsum möguleikum fyrir okkur. Um tíma vorum við að spá í að fara til Taílands, aðra stundina Nýja Sjálands en eftir töluverða leit sáum við að það var hagstæðast fyrir okkur að fljúga fara frá Evrópu til Singapore, þaðan til Ástralíu og svo til Balí þar sem við ætlum að dvelja um tíma og þaðan aftur áleiðis heim. Til þess að finna út hvaða flugfélög voru í boði notaði ég leitarvélar á borð við Dohop og edreams. Yfirleitt er hagstæðast að bóka í gegnum flugfélagið sjálft en ég nota þessar leitarvélar til þess að hjálpa mér að finna sniðugar flugleiðir. Í þessari ferð ætlum við að fljúga til nokkurra landa og þá er best að fara inn á heimasíðu flugfélagsins og velja multi city/stopover hnappinn. Þá kemur upp sá möguleiki að velja fleiri borgir til að fljúga til. Það getur munað miklu í verði á því hvaða vikudag þú velur og einnig getur verð hækkað eftir því sem skoðað er oftar. Ég hef það fyrir reglu að finna ákveðnar dagsetningar sem henta okkur vel og ef ég sé að flugið hefur hækkað þá bíð ég yfirleitt í nokkra daga og þá lækkar það yfirleitt aftur. Það getur einnig munað miklu í verði á því hvaða dagsetningu þú velur og því er best ef maður getur haft sveigjanleika í dagsetningum.

 

 

Þar sem við erum sex manna fjölskylda á ferðalagi skiptir gisting miklu máli. Best er fyrir okkur að vera íbúð með aðgang að eldhúsi til þess að minnka matarkostnað. Við bókum yfirleitt gistingar í gegnum booking.com, Airbnb og Agoda. Það er misjafnt eftir dagsetningum hvaða síða er hagstæðust og hvað er í boði. Þetta krefst líka þolinmæði en yfirleitt lendum við á einhverju sniðugu að lokum. Í sumum tilfellum borgar sig að borga gistingu strax, þar sem boðið uppá er upp á góðan staðgreiðsluafslátt en í öðrum tilfellum er hagstæðara að borga gistinguna þegar mætt er á staðinn.

 

Ferðalagið okkar hefst eftir nokkra daga og þú getur fylgst með því á Instagram og Facebook.

 

Í næsta pistli ætla ég að velta fram þeirri spurningu hvort það sé gerlegt að ferðast einfalt og létt hinum megin á hnöttinn með fjögur börn. 

 

 

Kær kveðja,

 

Gunna Stella

 

 


Alltaf óreiða í barnaherberginu?

Barnaherbergið er allt í drasli. Leikföng út um allt og börnin vilja helst leika sér frammi. Kannastu við þetta?

Ég hef svo oft lent í þessu og hef gripið til fjölbreyttra aðferða þegar kemur að því að halda barnaherberginu í horfi.

  • Ég hef geymt leikföng á háaloftinu og skipt þeim reglulega út fyrir önnur sem eru inni í herbergi.
  • Ég hef keypt nýjar geymsluhirslur fyrir herbergið.
  • Ég hef hótað að gefa hlutina ef það er ekki gengið frá þeim o.sfrv.

 

En ekkert af þessu virkaði

Stundum voru herbergisgólfin svo þakin leikföngum að ekki var hægt að leika sér í herberginu og þá færðu börnin fært sig fram af því að þar var meira pláss.

En þetta gjörbreyttist þegar ég hætti að skipuleggja herbergið þeirra og fór að hjálpa þeim að einfalda það. Þvílík breyting sem átti sér stað. Eftir því sem leikföngin urðu færri í herberginu, því meira léku börnin sér.

 

Það var ekki fyrr en ég hætti að reyna að finna hið fullkomna skipulag og hætti að leita að hinni fullkomnu geymsluhirslu að barnaherbergið varð að herbergi en ekki geymslu fyrir leikföng.

 

Það var mér mjög minnistætt þegar ég hélt fyrsta barnaafmælið eftir að við höfðum komið herbergi drengjanna í það horf sem það er núna, þ.e með minna af leikföngum. Þetta var leikskólaafmæli fyrir son minn sem var þá fimm ára. Allir drengirnir á deildinni komu í afmælið og voru í tvo klukkutíma að leik og snæðingi. Drengirnir höfðu verið í eltingaleik, feluleik, lego og haft ótrúlega skemmtilegan tíma saman og viti menn, það var ekki allt í drasli eftir afmælisveisluna. Þar sem ekki var of mikið magn af leikföngum fékk ímyndunarafl og sköpunargáfa að blómstra sem var dásamlegt. 

 

Til þess að börn leiki sér betur er svarið oftast ekki að bæta við leikföngum ólíkt því sem margir halda heldur einmitt að hafa færri leikföng. Í kjölfarið að því verður mun auðveldara fyrir börnin að ganga sjálf frá og halda herberginu sínu snyrtilegu.

 

Ég mæli með því að takmarka magn leikfanga við ákveðið geymslurými. Ég nota t.d plastkassa á hjólum sem hægt er að rúlla undir rúm sem mælikvarða þessa stundina. Um leið og leikföng eru farin að flæða úr þessum kössum þá er komin tími til að minnka magn leikfanga í herberginu. Í þessum kössum er lego, búningar og annað sem þeir leika sér með.

 

Börnin okkar þurfa kannski bara aðeins minna af hlutum og meira af gæðastundum með okkur foreldrum, er það ekki?

 

Ég hvet þig til að taka skref í átt að einfaldara herbergi fyrir börnin þín. Endilega fylgstu síðan með á heimasíðunni minni og á Facebook síðu Einfaldara lífs. Þar getur þú t.d nálgast stutta myndbandskennslu um það hvernig hægt er að einfalda svefnherbergið. 

 

 

Kærleikskveðja,

Gunna Stella










« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband